Fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederikssen, hefur verið ákærður fyrir að leka ríkisleyndarmálum.
Frederiksen, sem var ráðherra á árunum 2016 til 2019, greindi frá því á Facebook að hann hefði verið ákærður.
Áður hafði danska saksóknaraembættið sagt að fyrrverandi þingmaður yrði ákærður fyrir að „gefa upp eða láta af hendi leyndarmál, mikilvæg þjóðaröryggi“.
Frederikssen skrifaði einnig á Facebook að hann hefði ekki misnotað tjáningarfrelsi sitt og að hann hefði ekki lekið meintum ríkisleyndarmálum.
Ráðherrann fyrrverandi var rannsakaður vegna málsins en naut friðhelgi sem þingmaður, þangað til í nóvember, þegar hann ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri í næstu þingkosningum.
Málið tengist því þegar rannsókn danskra fjölmiðla leiddi í ljós að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin notaði danska sæstrengi til að njósna um embættismenn í Frakklandi, Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð þangað til að minnsta kosti árið 2014.