Ánægja með fjögurra daga vinnuviku

Starfsfólk Tyler Grange, fyrirtækis sem sérhæfir sig í ráðgjöf á …
Starfsfólk Tyler Grange, fyrirtækis sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði umhverfismála, er yfir sig ánægt með að vinna fjögurra daga viku. Ljósmynd/Tyler Grange

Yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna breskra fyrirtækja telur sig njóta aukinna lífsgæða með því að vinna fjögurra daga vinnuviku án launaskerðingar, til dæmis með því að taka frí á miðvikudögum.

Þetta reyndist útkoman úr sex mánaða langri tilraun sem fjöldi fyrirtækja um gervallt Bretland tóku þátt í tímabilið júní til desember í fyrra. Voru þar fyrirtæki í flestum atvinnugreinum, allt frá brugghúsum og skyndibitastöðum með fisk og franskar yfir í hugbúnaðarfyrirtæki og ráðningarstofur.

Faye Johnson-Smith starfar hjá einu fyrirtækjanna sem þátt tóku og átti frí á miðvikudögum í hálft ár sem gerir hátt í þrjátíu miðvikudaga. Kveðst hún í samtali við ríkisútvarpið BBC hafa skynjað aukna hamingju og vellíðan og vinnufélagarnir taka undir það með henni, nánast allir sem einn.

Bretum veitir ekki af

Segir Johnson-Smith að miðvikudagsfríið hafi veitt henni færi á að safna orku og koma tvíefld til starfa á ný seinni tvo daga vinnuvikunnar, fimmtudag og föstudag. Bethany Lawson, samstarfskona hennar, segir teymið sem hún starfar í láta betur að stjórn í fjögurra daga vinnuviku auk þess sem hvíldin í miðri viku geri henni kleift að leggja harðar að sér.

Formerki þessarar umfangsmiklu tilraunar voru að starfsfólkið sem ynni fjögurra daga viku afkastaði því sama og það gerði á fimm dögum, hvort sem um var að ræða þjónustu eða beinharða framleiðslu. Ellegar stæði það ekki undir því að fá greitt fullt kaup.

Ekki veitir Bretum af vítamínsprautu á sviði framleiðslu, landið hefur dregist aftur úr öðrum auðugum þjóðum heims hin síðustu ár þegar kemur að verðmætasköpun á hvern starfsmann.

Höfundar skýrslu um tilraunina játa þann augljósa annmarka að hún var byggð á sjálfboðaliðum og mætti þannig gera því skóna að þau fyrirtæki sem buðust til þátttöku hefðu ekki gert það nema vitandi að þau væru í stakk búin til að koma vel út úr öllu saman á efsta degi.

Breytingin varanleg hjá 18 fyrirtækjum

Hvað sem því líður segir Juliet Schor, einn aðstandenda tilraunarinnar og starfandi við Háskólann í Boston sem stóð að verkefninu ásamt háskólunum í Cambridge og Oxford, að útkoman hafi verið mjög góð út frá framleiðni og fjölda annarra þátta sem skoðaðir voru, svo sem kostnaði og velferð starfsfólks.

Af 61 fyrirtæki, sem lagði sitt lóð á vogarskál rannsóknarinnar, hyggjast 56 nú halda áfram með fjögurra daga vinnuviku, að minnsta kosti um hríð, en þar af segja talsmenn 18 þeirra að ætlunin sé að láta breytinguna standa til frambúðar.

BBC

Financial Times

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert