Biden og Pútín flytja báðir ávarp í dag

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Valdimír Pútín Rússlandsforseti munu báðir flytja ávarp í dag, en á föstudag er ár síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. 

Biden kom óvænt til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, í gær og fundaði með Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta.

Hann flutti ávarp þar sem hann hét Úkraínu­mönn­um hernaðaraðstoð sem væri virði um 500 millj­óna banda­ríkja­dala, eða sem nem­ur tæp­um 72,4 millj­örðum ís­lenskra króna. Þá hét hann órofa stuðningi Banda­ríkj­anna við Úkraínu.

„Einu ári síðar stendur Kænugarður enn. Og Úkraína stendur enn. Lýðræðið stendur enn,“ sagði Biden í ávarpinu sem hann flutti við forsetahöll Úkraínu.

Fundar með evrópskum leiðtogum

Biden er nú staddur í Póllandi og mun hann flytja ávarp frá Varsjá um klukkan 16.30 á íslenskum tíma. 

John Kir­by, talsmaður þjóðarör­ygg­is­ráðs Banda­ríkj­anna, greindi frá því að í ávarpinu myndi Biden ítreka stuðning sinn við Úkraínu, eins lengi og hans er þörf. Forsetinn mun einnig koma á framfæri skilaboðum til Pútín og rússnesku þjóðarinnar í ávarpinu. 

Þá mun Biden funda með Andrzej Duda, forseta Póllands, í dag og ræða við leiðtoga Bretlands, Frakklands og Ítalíu í síma. 

Á morgun mun hann funda með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands. 

Ávarp Pútín klukkan 9

Gert er ráð fyrir að sjónvarpsávarp Pútín muni hefjast um klukkan 9 á íslenskum tíma. 

Ávarpaði mun að mestu leyti fjalla um átökin en þó þykir ólíklegt að hann muni tilkynna frekari stigsmögnun stríðsins eða breytingu á stefnu ríkisins. 

Talið er að um 180 þúsund rússneskir hermenn hafi látið lífið í átökunum og um 100 þúsund úkraínskir hermenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert