Joe Biden Bandaríkjaforseti og Valdimír Pútín Rússlandsforseti munu báðir flytja ávarp í dag, en á föstudag er ár síðan Rússar réðust inn í Úkraínu.
Biden kom óvænt til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, í gær og fundaði með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta.
Hann flutti ávarp þar sem hann hét Úkraínumönnum hernaðaraðstoð sem væri virði um 500 milljóna bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 72,4 milljörðum íslenskra króna. Þá hét hann órofa stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu.
„Einu ári síðar stendur Kænugarður enn. Og Úkraína stendur enn. Lýðræðið stendur enn,“ sagði Biden í ávarpinu sem hann flutti við forsetahöll Úkraínu.
Biden er nú staddur í Póllandi og mun hann flytja ávarp frá Varsjá um klukkan 16.30 á íslenskum tíma.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, greindi frá því að í ávarpinu myndi Biden ítreka stuðning sinn við Úkraínu, eins lengi og hans er þörf. Forsetinn mun einnig koma á framfæri skilaboðum til Pútín og rússnesku þjóðarinnar í ávarpinu.
Þá mun Biden funda með Andrzej Duda, forseta Póllands, í dag og ræða við leiðtoga Bretlands, Frakklands og Ítalíu í síma.
Á morgun mun hann funda með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands.
Gert er ráð fyrir að sjónvarpsávarp Pútín muni hefjast um klukkan 9 á íslenskum tíma.
Ávarpaði mun að mestu leyti fjalla um átökin en þó þykir ólíklegt að hann muni tilkynna frekari stigsmögnun stríðsins eða breytingu á stefnu ríkisins.
Talið er að um 180 þúsund rússneskir hermenn hafi látið lífið í átökunum og um 100 þúsund úkraínskir hermenn.