Ráðgáta um stóran, dularfullan hnattlaga hlut, sem skolaði á land við japönsku hafnarborgina Hamamatsu nýverið, stendur enn óleyst.
Hvorki lögreglan né sprengjusérfræðingar, sem voru sendir á vettvang, hafa hugmynd um hvaða hlutur þetta er.
Aftur á móti er vitað að kúlan stóra er hol að innan og almenningi stafar ekki ógn af henni.
Íbúar hafa sínar kenningar og hafa sumir þeirra kallað kúluna „egg Godzilla-skrímslisins“ eða telja hana koma utan úr geimnum.
Japanska fréttastofan NHK hefur birt myndefni af tveimur opinberum starfsmönnum á Enshuhama-ströndinni að virða fyrir sér ryðgaða kúlu sem er um það bil 1,5 metrar á breidd.
Það var íbúi sem rakst á kúluna og gerði hann yfirvöldum viðvart. Mikill viðbúnaður fór í gang og var stórt svæði girt af á meðan sérfræðingar athöfnuðu sig á vettvangi. Kúlan var skoðuð í bak og fyrir, röntgenmyndir teknar af fyrirbærinu en þrátt fyrir það stóðu menn á gati gagnvart því hvers konar hlutur þetta væri. Eitt var þó öruggt, ekki var um sprengju að ræða.
Annar vegfarandi sem átti þarna leið um er hissa á öllum látunum í kringum kúluna. Hann segir að kúlan hafi verið þarna í þó nokkurn tíma. „Ég reyndi að ýta henni en hún bifaðist ekki.“
Að sögn yfirvalda þá stendur til að fjarlægja hlutinn dularfalla innan skamms.
Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, að svona lagað veki sjaldan mikla athygli. En í ljósi frétta af dularfullum meintum kínverskum njósnaloftbelgjum á flugi yfir Bandaríkjunum, sem þarlend yfirvöld hafa síðan skotið niður, þá sé spennustigið víða töluvert hærra en gengur og gerist.