Embættismenn Kína og Rússlands funda

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. AFP/Attila Kisbenedek

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hefur fundað með Nikolai Patrúsjev, yfirmanni öryggisráðs Rússlands, í Moskvu í Rússlandi. 

Samkvæmt yfirskrift fundarins er verið að stuðla að „friði og stöðugleika“, en viðræðurnar eru haldnar tæpu ári eftir að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst. 

BBC greinir frá því að Yi og Patrúsjev sögðust vera andvígir svokölluðu „kalda stríðs hugarfari“, en yfirvöld í Kína hafa verið sökuð um að senda hernaðartækni til að styðja við innrás Rússa. 

Á meðan embættismennirnir funduðu beittu yfirvöld í Bandaríkjunum frekari refsiaðgerðum á Rússland. Kínverjar og Rússar sögðu að um „eineltistilburði væri að ræða“.

Yi mun einnig funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og mögulega Vladimír Pútín forseta. 

Þá eru sögusagnir um að Xi Jinping, forseti Kína, muni heimsækja Rússland á næstu mánuðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka