Læsti kennslustofunni áður en hann stakk kennarann

Nemandinn situr nú í gæsluvarðhaldi.
Nemandinn situr nú í gæsluvarðhaldi. AFP

Sextán ára drengur sem réð kennara sínum bana í Frakklandi í morgun, er sagður hafa stormað inn í miðja kennslustund með hníf á lofti og læst hurðinni á eftir sér áður en hann stakk kennarann í bringuna.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og lést kennarinn af sárum sínum. Nemandinn hefur verið handtekinn og er honum haldið í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt heimildum BFM-fréttastofunnar sagði drengurinn við annan kennara að hann hefði heyrt rödd sem sagði honum að fremja ódæðið. Þá hefur komið fram í öðrum miðlum að hann hafi sagst vera andsetinn þegar hann réðst til atlögu.

Nemendum haldið í kennslustofum

Árásin átti sér stað í kaþólska skólanum Saint-Thomas d'Aquin sem staðsettur er í grennd við miðbæ Saint-Jean-de-Luz, sem er vinsæll ferðamannastaður á sumrin. 

Um hádegi voru flestir nemendur farnir að tínast heim en þeim hafði verið haldið lokuðum inni í kennslustofum tveimur tímum eftir árásina.

Einungis foreldrum nemenda sem sátu kennslustundina var heimilt að fara inn í skólabygginguna. 

Vaxandi áhyggjur

Árásir af þessum toga eru ekki algengar í frönskum skólum en undanfarið hafa vaxandi áhyggjur verið uppi af öryggi kennara. Í október árið 2020 var kennari myrtur skammt frá París og í júlí árið 2014 stakk móðir nemanda kennara til bana í bænum Albi.

„Ég á erfitt með að ímynda mér hvaða áhrif svona árás getur haft á samfélagið,“ segir Olivier Veran, talsmaður franskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert