Samstarf mikilvægt fyrir alþjóðlegan stöðugleika

Vladimír Pútín ásamt Wang Yi í Kreml í morgun.
Vladimír Pútín ásamt Wang Yi í Kreml í morgun. AFP/ Anton Novoderezhkin

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði á fundi með utanríkisráðherra Kína í morgun að samstarf á milli rússneskra og kínverskra stjórnvalda væri mikilvægt til að „halda ástandi alþjóðamála stöðugu“.

„Samstarfið á milli Kína og Rússlands á heimssviðinu er mjög mikilvægt til að halda ástandi alþjóðamála stöðugu,“ sagði Pútín á fundi með Wang Yi.

Kínverjar virðast vilja miðla málum á milli Rússa og Úkraínumanna. Búist er við því að Kínverjar ætli að kynna „pólitíska lausn“ sína vegna stríðsins í Úkraínu í þessari viku.

Pútín á fundinum í morgun.
Pútín á fundinum í morgun. AFP/Anton Novoderezhkin

Kínversk stjórnvöld hafa reynt að koma fram sem hlutlaus aðili í deilunni, á sama tíma og þau eiga náin tengsl við samherja sinn, Rússland.

Bandaríkjamenn og NATO segjast aftur á móti hafa áhyggjur af því að Kínverjar ætli að senda vopn og skotfæri til að hjálpa Rússum í Úkraínu.

„Hvað Rússa varðar erum við tilbúin til að styrkja vinskap okkar og djúpstæða samvinnu,“ sagði Wang Yi við Pútín. Hann bætti þó við að samstarfinu á milli landanna tveggja væri „ekki beint gegn neinu öðru ríki og að ekki verði látið undan þrýstingi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert