Maður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu í Ósló í Noregi og liggur undir grun um að hafa skotið annan með AK-47-árásarriffli við verslun IKEA á Furuset, svæði í Grorud-dalnum norðaustarlega þar í borginni, í gærkvöldi.
Var grunaði handtekinn í Mercedes Benz-bifreið sem lögreglan stöðvaði í Romerike, norðaustur af Ósló, í nótt og staðfesti lögregla við norska ríkisútvarpið NRK á fjórða tímanum í nótt að maðurinn væri grunaður um tilraun til manndráps.
Hefur grunaði áður hlotið refsidóm eða -dóma og telur lögregla að hann tengist glæpagengi á höfuðborgarsvæðinu en að sögn dagblaðsins VG þekkir lögregla einnig til þess er misgert var við. Verjandi mannsins, Øystein Ola Storrvik, segir skjólstæðinginn játa að hafa hleypt af skotum en vísa því á bug að þar hafi verið um tilraun til manndráps að ræða.
Fjöldi vegfarenda hringdi í lögreglu laust fyrir klukkan 20:30 í gærkvöldi, 19:30 að íslenskum tíma, og tilkynnti um að skotið hefði verið á bifreið við verslun IKEA. Fann lögregla fjögur tóm skothylki á vettvangi en sá sem var misgert við fékk skot í fótinn og er ástand hans ekki alvarlegt.
Í kjölfar handtöku meints árásarmanns var gerð húsleit á heimili hans og voru þar tíu lögregluþjónar við leit, þar á meðal sprengjusérfræðingar lögreglunnar með hund sér til fulltingis.
„Of snemmt er að segja nokkuð um aðdraganda árásarinnar,“ segir Rune Hekkelstrand lögregluvarðstjóri í samtali við NRK og bætir því við að málið sé nú í rannsókn og lögregla vinni að því að viða að sér upplýsingum.
Telur lögregla að Tesla-bifreið sem lagt var á stæðinu við IKEA tengist málinu og var hún dregin á brott til frekari rannsókna. Frá því greinir lögreglan á Twitter-síðu sinni.
Fjöldi fólks var staddur á bílastæðinu þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða í gærkvöldi en að sögn Hekkelstrand hefur lögregla ekki ástæðu til að ætla að árásin hafi að einhverju leyti beinst að þeim sem þar voru staddir, öðrum en þeim sem varð fyrir skoti. Lokaði lögregla akvegum út úr austurhluta Óslóar í gærkvöldi á meðan leit að árásarmanninum stóð yfir og voru tíu lögreglubifreiðar í verkefninu þegar mest var.