Vill græna valkosti við líkbrennslu

Forstjóri útfararþjónustu biðlar til skoskra stjórnvalda að innleiða græna valkosti …
Forstjóri útfararþjónustu biðlar til skoskra stjórnvalda að innleiða græna valkosti við hefðbundna líkbrennslu. Ljósmynd/Wikipedia.org/George Lippitsch

Andrew Purves, forstjóri stærsta útfararstjórnarfyrirtækis Skotlands, William Purves Funeral Directors, kallar eftir umhverfisvænni lausnum en líkbrennslu og hefðbundinni greftrun. Hvort tveggja sé, að líkbrennsla kalli á mikla orkunotkun auk þess sem jarðrými taki að verða af skornum skammti fyrir hefðbundna jarðsetningu óbrenndra líkamsleifa.

Hefur skoska ríkisstjórnin gefið það út að vilji hennar standi til þess að leyfa valkostina vatnsbrennslu (e. water cremation) og niðurbrot (e. human composting) en báðar aðferðirnar ganga út á að brjóta jarðneskar leifar niður, annars vegar með vatni, hita og kalíumhýdroxíði en hins vegar með örverum sem brjóta mannslíkama niður í moldarkenndan massa. Hafa Svíar til dæmis leyft síðarnefndu aðferðina auk nokkurra ríkja Bandaríkjanna.

Hörgull á plássi í kirkjugörðum

Í samtali við breska ríkisútvarpið BBC segir Purves samfélagið kalla eftir fleiri sjálfbærum valkostum sem sumir hverjir fyrirfinnist nú þegar en hafi ekki verið leiddir í skosk lög. „Líkbrennsla í logum er ekkert sérstaklega umhverfisvæn og krefst mikillar orku,“ segir forstjórinn og biðlar til stjórnvalda að leyfa framangreindu aðferðirnar tvær.

Segir hann kirkjugarða í þéttbýli komna í vandræði með pláss. „Fólk veit ekki að fleiri valkostir eru til. Það ætti að fá að hafa skoðun á málinu,“ segir Purves. Hollenski sjálfbærnirannsakandinn Elisabeth Keijzer hefur bent á að umhverfisáhrif vatnsbrennslu séu mun vægari en hefðbundinnar líkbrennslu.

Heimildarmaður á vegum hins opinbera, sem BBC ræðir við, bendir á að lögin um jarðsetningu og líkbrennslu frá 2016 leyfi nýjar aðferðir. „Við ætlum okkur að setja reglugerð um vatnsbrennslu til notkunar í Skotlandi. Allar aðferðir líkeyðingar verða hins vegar að vera jafn öruggar og sæmandi svo við þurfum að gæta hér að almenningi og trausti hans,“ segir heimildarmaðurinn. Innan skamms hyggist stjórnvöld kynna næstu skref á þessum vettvangi.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert