Milljarðamæringurinn, tæknifrumkvöðullinn og rithöfundurinn Vivek Ramaswamy hefur tilkynnt framboð sitt til forseta Bandaríkjanna. Hann hefur málað sig upp sem andstæðing hinna „vakandi-vinstrimanna“ og segir Bandaríkjamenn samþykkja tvístrandi trúarbrögð Covid-isma og umhverfismála til þess að gefa lífinu merkingu. Þjóðin geti þó ekki svarað því „hvað það þýði að vera frá Bandaríkjunum.“
Ramaswamy býður sig fram til forseta fyrir Repúblikanaflokkinn og er sá þriðji til þess að tilkynna framboð sitt. Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu og fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum opinberaði framboðsáform sín í síðustu viku. Sá þriðji er Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna en hann tilkynnti heimsbyggðinni um framboð sitt í nóvember á síðasta ári.
Í framboðsmyndbandi sínu segir Ranaswamy Bandaríkin eiga við sjálfsmyndarkreppu. Hann segir trú, þjóðarstolt og eljusemi hafa horfið í þágu Covid-isma, umhverfismála og nýrrar hugmyndafræði um kyn.
„Í dag nýtir „vakandi-vinstrið sér tómið sem er að myndast vegna þessa. Þau segja þér að kynþáttur þinn og kynhneigð þín stjórni því hver þú ert, hvað þú getur gert og hvað þú mátt hugsa. Þetta er sálfræðilegt þrælahald og hefur það skapað nýja menningu í kringum ótta í landinu okkar sem hefur komið í staðinn fyrir menningu málfrelsis í Bandaríkjunum. Það er út af þessu sem ég tilkynni framboð mitt til forseta Bandaríkjanna í dag,“ segir Ramaswamy.
Hann segir markmið sitt vera að búa til nýjan „amerískan draum“ fyrir næstu kynslóðir sem byggist á verðleikum, karakter og því sem þú leggur til samfélagsins. Bandaríkjamenn eigi ekki að þurfa að „velja á milli þess að segja það sem þú vilt eða að geta borið mat á borð.“
Þá heldur Ramaswamy því fram að fólk sé kannski ósammála um það hvort Ivermectin lækni fólk af kórónaveirunni eða hvernig eigi að skattleggja fyrirtæki, það skipti þó litlu máli. Bandaríkjamenn séu þó sammála um grunngildi landsins en Demókratar séu að ýta fólki í sundur til þess að halda völdum.
Þegar þessi grein er skrifuð er framboðsmyndband Ramaswamy með rúmlega þrjár milljónir áhorfa á Twitter en myndbandið má sjá hér að ofan.