Susanne Hein Kristensen, sextugur félagsliði, brotnaði saman og grét í Héraðsdómi Randers í Danmörku í dag þegar hún hlaut 16 ára fangelsisdóm fyrir stórfellt ofbeldi og tilraun til manndráps gagnvart fjórum vistmönnum Tirsdalen-umönnunarheimilisins þar í bænum sem hún eitraði fyrir í febrúar og mars í fyrra með þeim afleiðingum að eitt fórnarlambanna lést en hin veiktust heiftarlega en flytja þurfti öll fjögur með hraði á sjúkrahús.
Í ákæru var Kristensen gefið að sök að hafa gefið fólkinu vöðvaslakandi lyfið Baklófen sem gefið er við spastískum vöðvakrömpum og skylt gamma-amínó-smjörsýru, GABA, sem dregur úr losun ákveðinna boðefna í mænu. Ofan í það hafi ákærða gefið fórnarlömbum sínum geðdeyfðarlyfið Mirtazapín, sem einnig hefur róandi verkun, og bensódíasepínlyfið Diazepam, almennt þekkt sem Valíum, sem hefur slævandi, kvíðastillandi og vöðvaslakandi eiginleika.
Neitaði félagsliðinn staðfastlega sök gegnum allan rekstur málsins og ítrekaði í hinsta sinn áður en dómarar og kviðdómur gengu afsíðis til að greiða atkvæði sín um sekt hennar eða sakleysi. „Ég gerði það ekki,“ voru hennar síðustu orð áður en dómurinn var kveðinn upp.
Niðurstaðan var sú að Kristensen hlaut ekki dóm fyrir manndráp heldur fjórar tilraunir til manndráps og beitingu stórfellds ofbeldis í fjórum tilfellum, þar af einu sem hafði banvænar afleiðingar.
„Ákærða hafði, sem tengiliður við fórnarlömbin og föst kvöldeftirlitsmanneskja þeirra, hvort tveggja í umönnunaríbúðunum og íbúðunum fyrir eldri borgara, yfirgripsmikla þekkingu á heilsufari þeirra,“ segir í dómsniðurstöðu. Taldi dómurinn ósannað að Kristensen hefði áttað sig á að lyfin sem hún gaf fjórmenningunum hefðu verið þeim svo hættuleg sem raun bar vitni en þó hefði henni mátt vera ljóst að háttsemi hennar gæti haft alvarleg veikindi í för með sér. Með þeim rökstuðningi sýknaði héraðsdómur af ákæruliðnum sem fjallaði um manndráp.
Taldi rétturinn þó sannað að Kristensen hefði verið kunnugt um að fólkið gæti hlotið bana af lyfjagjöfinni en framburður hátt í 40 vitna við aðalmeðferð málsins benti til þess að ásetningur hennar hefði staðið til þess að skaða vistmennina. Hefði hún varið óeðlilega miklum tíma í lyfjageymslu heimilisins um það leyti sem fólkið veiktist auk þess sem við húsleit á heimili hennar fundust lyf sem hún hafði haft með sér heim og voru þau sömu og hún gaf fórnarlömbum sínum. Þá hefði Kristensen verið eini starfsmaður heimilisins sem var á vakt – og samvistum við alla vistmennina sem veiktust – kvöldið áður en flytja þurfti þá á sjúkrahús.
Taldi héraðsdómur Kristensen engar málsbætur eiga sér og skyldi henni metið til refsiþyngingar að hún valdi sér fjögur fórnarlömb úr hópi þeirra sem hún hafði eftirlit með. Þá yrði að líta til þess að starf ákærðu fólst í því að gæta vistmanna heimilisins og undan þeirri skyldu hefði hún vikið sér gróflega.
„Um var að ræða fjóra varnarlausa og veiklaða vistmenn á umönnunarheimili þar sem ákærða misnotaði stöðu sína sem félagslegur stuðningsaðili innan heilbrigðiskerfisins yfir lengra tímabil og lagði á ráðin um gjörðir sínar af fullkomnu tillitsleysi,“ sagði að lokum í rökstuðningi dómenda.
DRII (frá upphafi aðalmeðferðar í janúar)