Það hefur hitnað í kolunum á Gaza-svæðinu eftir að sex eldflaugum var skotið af svæðinu á skotmörk í suðurhluta Ísrael sem svar við áhlaupi Ísraelsmanna í borginni Nablus þegar ellefu Palestínumenn voru felldir.
Ísraelsher svaraði með loftárásum á tvö hernaðarlega mikilvæg skotmörk Hamas-samtakanna. Enginn hefur enn verið sagður særður í árásunum.
Rúmt hálft ár er síðan mikil átök brutust út á svæðinu.
Tor Wennesland, sendiherra Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum, sem hefur meðal annarra reynt að miðla málum til að koma í veg fyrir stigmögnun ástandsins, er kominn til Gaza þar sem hann mun hitta leiðtoga Hamas-samtakanna.
„Ég er virkilega sár yfir áframhaldandi hringrás ofbeldis og hryggur yfir falli óbreyttra borgara,“ sagði hann við fréttamenn áður en hann fór til Gaza. „Ég hvet alla aðila til að kveikja ekki í nú þegar óstöðugu ástandi.“
Enginn hefur lýst ábyrgð á eldflaugaárásum á skotmörk í Ísrael á hendur sér. Ísraelsher tókst að stöðva fimm af sex eldflaugum en ein þeirra sprakk á opnu svæði.
Tveimur tímum síðar gerði Ísraelsher loftárásir á vopnaframleiðslustað og herstöð Hamas-samtakanna á Gaxa-svæðinu.
Við munum svara af krafti á öllum vígstöðvum, til að halda óvinum okkar í skefjum og tilraunum þeirra til að ráðast á okkur. Hver sem reynir að skaða okkur mun gjalda fyrir það, sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels að loknum ríkisstjórnarfundi.
Yfir 60 Palestínumenn hafa fallið í átökum stríðandi fylkinga á árinu til þessa, bæði hermenn og óbreyttir borgarar. Á sama tíma hefur tugur Ísraelsmanna fallið auk eins Úkraínumanns í átökunum á Vesturbakka Jórdanár.
Bandaríkjamenn hafa lýst yfir vaxandi áhyggjum af ástandinu og á miðvikudag sögðust þeir vera orðnir mjög áhyggjufullur af miklu ofbeldi á svæðinu.