Svæfingarlyfið ketamín í amfetamíni og rottueitur og verkjalyfið fentanýl í kókaíni eru líklegustu orsakir bylgju dauðsfalla meðal eiturlyfjaneytenda í Arendal í Suður-Noregi undanfarna mánuði.
„Grunur leikur á ketamíni í amfetamíninu og rottueitri og fentanýli í kókaíninu. Passið upp á hvert annað!!!“ segir í aðvörun á Facebook-síðu feltsykepleien í Arendal og Grimstad en þar er um að ræða heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur að skaðaminnkun í samfélagi eiturlyfjaneytenda sem nota lyf sín í æð og er því sérstaklega hætt við óhreinu efni. Eins hafa heilbrigðisyfirvöld svæðisins sent frá sér bréf sem hengt hefur verið upp á þekktum samkomustöðum sprautufíkla.
„Við höfum heyrt það frá neytendum að óhreint og sterkt efni sé í umferð,“ segir Ørjan Fossheim, verkefnisstjóri þess sem hjá sveitarfélaginu Arendal heitir livsmestring og gengur út á að aðstoða kantmenn lífsins þar í bænum við að koma sér á réttan kjöl. Segist hann taka þessum upplýsingum af hinni mestu alvöru. „Ef þeir hefðu ekki verulegar áhyggjur færu þeir ekki að deila þessu með okkur,“ segir hann í samtali við ríkisútvarpið NRK af því fólki sem starf hans snýst um.
Lögreglan í Arendal hefur hafið rannsókn málsins og lýsir Helge Torsvik, deildarstjóri þar, áhyggjum sínum. „Mun fleiri ofskömmtunardauðsföll en venjulegt er hafa vakið athygli lögreglunnar undanfarið. Það veldur okkur áhyggjum,“ segir Torsvik. Hann vill ekki nefna tölu en NRK kveðst hafa heimildir fyrir því að dauðsföllin fylli orðið tug.
Segir Torsvik enn fremur að lögreglu sé kunnugt um að orsökin sé líklega óhreint efni í bland við mjög sterk lyf en þess má geta að fentanýl er hundrað sinnum sterkara verkjalyf en morfín. Hefur lögreglan í Arendal sent sýni af því sem þar er í umferð til Háskólasjúkrahússins í Ósló til greiningar.
„Lögreglunni er kunnugt um að mörg fiskisagan flýgur í samfélagi fíkniefnaneytenda. Það er ekki undarlegt. Þess vegna viljum við fá staðreyndirnar á borðið. Þá fyrst getum við gefið almennileg svör,“ segir Torsvik.
Þá stendur til að kryfja lík nokkurra þeirra sem látist hafa og verður það gert á sjúkrahúsinu í Ósló. Biðtíminn í málum sem eru ekki beinlíns manndrápsmál er hins vegar margar vikur svo liðið gæti vel fram á vorið þar til dánarorsakir liggja fyrir.
Rottueitur í amfetamíni er ekki óþekkt fyrirbæri, árið 2012 fannst slíkt eitur í amfetamíni sem var í umferð í Ørsta og Volda.
NRK
NRKII (rottueitur í amfetamíni árið 2012)
Fædrelandsvennen (læst áskriftargrein)