Sænska lögreglan hefur hafið rannsókn á tildrögum þess er Mats Löfving, lögreglustjóri í Stokkhólmi og aðstoðarríkislögreglustjóri Svíþjóðar, fannst látinn á heimili sínu í gær.
Skömmu fyrir andlát hans, einnig í gær, leit skýrsla um rannsókn á málefnum Löfvings dagsins ljós þar sem lagt er til að ríkislögreglustjóri taki til íhugunar að víkja honum frá störfum en í desember afhjúpaði sænska dagblaðið Expressen að Löfving hefði árið 2015 skipað Lindu Staaf, sem hann átti í ástarsambandi við, yfirmann innan rannsóknarlögreglunnar NOA sem þá hafði leyst eldra embætti, Rikskriminalen, af hólmi.
Valdi Löfving Staaf úr hópi rúmlega 20 umsækjenda sem allir bjuggu yfir umfangsmikilli reynslu af lögreglustörfum. Skorti hann hins vegar hæfi til að skipa hana vegna tengsla þeirra.
Það var um klukkan 19 í gær að sænskum tíma, 18 að íslenskum, sem lögreglu barst tilkynning um mann með alvarlega áverka í íbúð í Norrköping. Þegar lögregla kom á vettvang fann hún Löfving þar látinn.
Í fréttatilkynningu greinir Anders Thornberg ríkislögreglustjóri frá því að aðstandendum Löfvings hafi verið gert aðvart og dauðsfallið sé nú til rannsóknar. „Hugur minn er hjá aðstandendum hans og samstarfsfólki,“ segir Thornberg í tilkynningunni og tekur undir lokin fram að lögreglan tjái sig ekki frekar um málið að svo búnu.