Lögregluþjónn skotinn eftir knattspyrnuæfingu

Tæknimenn lögreglu á vettvangi ódæðisins í dag. Caldwell liggur á …
Tæknimenn lögreglu á vettvangi ódæðisins í dag. Caldwell liggur á sjúkrahúsi illa haldinn en í stöðugu ástandi. AFP/Paul Faith

Þrír menn eru í haldi lögreglu í Omagh á Norður-Írlandi, grunaðir um tilraun til manndráps sem var fólskuleg skotárás á yfirlögregluþjón á frívakt, John Caldwell, um klukkan 20 í gærkvöldi en Caldwell var þá að koma af knattspyrnuæfingu þar sem hann þjálfaði unga pilta í Killyclogher Road-íþróttamiðstöðinni.

Var hann að koma nokkrum boltum fyrir í farangursrými bifreiðar sinnar, með son sinn sér við hlið, þegar tveir menn komu aðvífandi og skutu hann margsinnis. Caldwell forðaði sér á hlaupum en hneig brátt niður og skutu mennirnir þá enn að honum áður en þeir flúðu af vettvangi á bifreið sem síðar fannst brunnin utan við Omagh.

Var yfirlögregluþjónninn fluttur á Altnagelvin-sjúkrahúsið í Londonderry og er ástand hans nú sagt alvarlegt en stöðugt.

Vopnaður lögregluþjónn á vettvangi við Killyclogher Road í dag.
Vopnaður lögregluþjónn á vettvangi við Killyclogher Road í dag. AFP/Paul Faith

Tengjast líklega Nýja lýðveldishernum

Írska lögreglan, An Garda Síochána, handtók í dag þrjá menn, en ekki er ljóst hvort árásarmennirnir eru þeirra á meðal. Hinir handteknu, sem eru 38, 45 og 47 ára, tengjast að því er talið er Nýja lýðveldishernum svokallaða, New IRA, en lýðveldissinnar á Norður-Írlandi eru fylgjandi því að landið sameinist Írlandi undir merkjum eins lýðveldis sem tilheyri Bretlandi í engu.

Nýja lýðveldishernum, sem stofnaður var í júlí 2012, tilheyrir nokkur hundruð manna hópur sem er ekki hlynntur því að ná markmiðum sínum friðsamlega og var andsnúinn vopnahléi Írska lýðveldishersins, IRA, sem hófst árið 1994. Hópur sem síðar gekk inn í Nýja lýðveldisherinn er talinn ábyrgur fyrir vígi lögregluþjónsins Ronans Kerrs árið 2011 og í nóvember 2012 lýstu samtökin ábyrgð sinni á skotárás sem leiddi til dauða fangavarðar í Lurgan.

Árásarmennirnir eru taldir hafa tengsl við Nýja lýðveldisherinn, New IRA, …
Árásarmennirnir eru taldir hafa tengsl við Nýja lýðveldisherinn, New IRA, sem er andsnúinn vopnahléinu frá 1994. AFP/Paul Faith

Leiðtogar fordæma árásina

Simon Byrne, ríkislögreglustjóri Norður-Írlands, greindi frá handtökunum í dag en Mark McEwan aðstoðarríkislögreglustjóri greindi frá meintum tengslum hinna handteknu við Nýja lýðveldisherinn.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, fordæmir skotárásina og það gerir írski starfsbróðir hans, Leo Varadkar, einnig ásamt Chris Heaton-Harris, ritara Norður-Írlands eins og embætti forsætisráðherra þar kallast. Þá hafa nokkrir flokksleiðtogar á norðurírska þinginu gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem árásin er fordæmd og „andstæðingar friðar okkar“ sagðir hafa verið þar að verki.

The Irish News
Belfast Live
BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert