Skyttan innsti koppur í búri íþróttafélags

Maðurinn, sem handtekinn var í kjölfar skotárásar við IKEA á …
Maðurinn, sem handtekinn var í kjölfar skotárásar við IKEA á Furuset í Ósló á þriðjudagskvöld, hefur hlotið nokkra refsidóma auk þess að koma að stjórn íþróttafélags. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Skotárásin við IKEA-verslun í Ósló í fyrrakvöld snerist um peningaskuld, þó ekki þess sem fyrir skotinu varð heldur þess sem skaut. Mun hann hafa skuldað fórnarlambi sínu fé, ellegar einhverjum sem það tengdist.

Í innheimtustarfsemi sinni kom sá, sem fyrir skotinu varð, meðal annars á heimili hins þar sem barnaafmæli stóð þá yfir. Í yfirheyrslu í gær játaði árásarmaðurinn að hafa skotið innheimtumanninn í fótinn en vísaði því á bug að um tilraun til manndráps hefði verið að ræða, hann hafi aðeins ætlað að skjóta fjandmanni sínum skelk í bringu.

Grunaði á að sögn norska ríkisútvarpsins NRK fyrirtæki sem árið 2020 stóð í 10,6 milljóna króna skuld, jafnvirði vel á annað hundrað milljóna íslenskra króna, og rambar á barmi gjaldþrotaskipta að sögn fyrirtækjaskrárinnar í Brønnøysund. Á Mercedes Benz-bifreið sem maðurinn forðaði sér af vettvangi í hvílir enn fremur 1,6 milljóna króna veð, upphæð sem nemur 22,5 milljónum íslenskra króna.

Þýfi, smygl og bankarán

Upp úr kafinu kemur enn fremur að hann hefur sterk tengsl við ónefnt íþróttafélag og hefur komið að stjórn þess um árabil og greindu fjölmiðlar enn fremur frá því í gær að nokkrir refsidómar hafi fallið yfir honum síðustu tvo áratugina.

Féll sá síðasti í haust þegar hann hlaut fimm mánaða fangelsi, þar af tvo mánuði skilorðsbundna, fyrir verslun með þýfi, stolin Rolex-úr. Leit dómari til þess við ákvörðun refsingar að meira en áratugur hafði þá liðið frá síðasta dómi og frá því sá féll hefði ákærði aflað sér menntunar auk þess að hefja löglega starfsemi og eignast fjölskyldu.

Árið 2008 hlaut hann sex ára dóm fyrir misheppnaða tilraun til að smygla 93 kílógrömmum af hassi til Noregs í félagi við aðra. Tollverðir í Þýskalandi stöðvuðu sendinguna árið áður og viðurkenndi maðurinn að hafa stjórnað smyglaðgerðinni.

Þá hlaut hann dóm fyrir hlutdeild í bankaráni í Kristiansand 4. apríl 2007 en þar hafði hann tekið þátt í að leggja á ráðin um ránið auk þess að útvega flóttabíl. Höfðu ræningjarnir 400.000 krónur upp úr krafsinu, 5,6 íslenskar milljónir að núvirði.

Aðrir dómar mannsins eru fyrir kaup á 200 grömmum af kókaíni og frelsissviptingu árið 1999 sem héraðsdómur taldi að snerist um handrukkarastarfsemi.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert