„Tími örlaganna í Evrópu“

Jonas Gahr Støre heilsar Javier Solana, fyrrverandi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, á …
Jonas Gahr Støre heilsar Javier Solana, fyrrverandi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, á ráðstefnunni. AFP/Odd Andersen

„Það er mér mjög mikilvægt að Finnland og Noregur eru hér í dag,“ sagði sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson á árlegri öryggismálaráðstefnu þjóðarleiðtoga, sendierindreka og öryggissérfræðinga heimsins í München í Þýskalandi um síðustu helgi, Münchner Sicherheitskonferenz, en hana sótti norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre ásamt starfsbróður sínum í Svíþjóð og finnska forsetanum Sauli Niinistö.

Fyrir Noregs hönd sóttu Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra og Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra ráðstefnuna einnig.

Yoshimasa Hayashi, utanríkisráðherra Japans, flytur ræðu á ráðstefnunni á laugardaginn.
Yoshimasa Hayashi, utanríkisráðherra Japans, flytur ræðu á ráðstefnunni á laugardaginn. AFP/Odd Andersen

Ræddu norrænu leiðtogarnir þar meðal annars væntanlega aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu NATO og sagði Kristersson dyggan stuðning Norðmanna við umsókn Svía mikilvægan, ekki eingöngu fyrir Svíþjóð heldur einnig fyrir önnur NATO-ríki sem þegar hefðu samþykkt umsóknina. „Noregur hefur þar vísað veginn,“ sagði sá sænski.

Hélt hann þá áfram ræðu sinni, sem flutt var á blaðamannafundi í tengslum við ráðstefnuna, og kvað 70 ára aðild Noregs að NATO koma sér vel, Norðmenn byggju þar með yfir dýrmætri reynslu sem nýst gæti nýliðunum er þar að kæmi.

Engin ógn gagnvart Rússlandi

Niinistö tók undir orð Kristerssons og benti á legu landanna þriggja hvers ofan í öðru. „Og við verðum enn nær þegar öll fimm norrænu ríkin tilheyra orðið NATO,“ sagði forsetinn og benti á að Danir tækju ötulan þátt í umræðum Norðurlandanna um stefnu í öryggismálum.

Vítalí Klitsjkó, borgarstjóri Kænugarðs í Úkraínu, gnæfir yfir viðmælendur sína …
Vítalí Klitsjkó, borgarstjóri Kænugarðs í Úkraínu, gnæfir yfir viðmælendur sína á ráðstefnunni. AFP/Odd Andersen

Í ræðu sinni ítrekaði Støre stuðning Norðmanna við nýju NATO-ríkin væntanlegu og sagði Evrópu standa á örlagaríkum tímamótum. „Nú er tími örlaganna í Evrópu. Í því að þrjú norræn ríki sem eru sama sinnis fari yfir sjónarmið sín felst öryggi og dýpri skilningur á því hvað við höfum fram að færa í Evrópu framtíðarinnar,“ sagði ráðherrann.

Benti hann á að í NATO fælist engin ógn gagnvart Rússlandi og heldur ekki í Norðurlöndunum sem sinntu sínum eigin öryggismálum og horfðu til þess að öll Evrópuríki, stór sem smá, gætu átt sér örugga tilveru.

Bandaríski varaforsetinn Kamala Harris ávarpar ráðstefnugesti.
Bandaríski varaforsetinn Kamala Harris ávarpar ráðstefnugesti. AFP/Thomas Kienzle

Þá var andstaða Tyrkja við NATO-aðildina einnig til umræðu meðal norrænu leiðtoganna. Tyrkir og Ungverjar einir hafa ekki samþykkt umsóknir Finnlands og Svíþjóðar. Kveðast ungversk stjórnvöld munu samþykkja geri Tyrkir það en Tyrkir segjast nú búa sig undir að samþykkja umsókn Finna en þeim er þó enn uppsigað við sænsk stjórnvöld vegna Kóranbrennu í Stokkhólmi í mótmælum þar í janúar auk þess sem þeir hafa krafist þess að Svíar framselji þeim hóp Kúrda sem Tyrkir telja til hryðjuverkamanna.

TV2
Forsvarets Forum
Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert