Bretar héldu einnar mínútu þögn nú klukkan 11:00 og minntust þess í henni að eitt ár er liðið frá innrás Rússa í Úkraínu þennan sama dag í fyrra.
Rishi Sunak forsætisráðherra mun í dag efna til samkomu í embættisbústað sínum við Downing-stræti þar sem úkraínskir hermenn verða meðal gesta ráðherrans. Karl Bretlandskonungur flutti í morgun ávarp og fordæmdi í því gjörðir Rússa gagnvart nágrönnum sínum ásamt því að lofa Úkraínumenn fyrir seiglu þeirra og hugprýði.
„Heimurinn hefur með vaxandi hryllingi fylgst með allri þeirri ónauðsynlegu þjáningu sem Úkraínumenn hafa mátt þola, sumir hverjir fólk sem ég hef notið þeirrar ánægju að hitta hér í Bretlandi og víðar um heim, allt frá Rúmeníu til Kanada,“ sagði Karl.
Sagðist hann vona að hin ríkulega samstaða heimsins með Úkraínumönnum skilaði sér í fleiru en eingöngu áþreifanlegri aðstoð, í henni þyrfti einnig að búa styrkur sprottinn af þeirri vissu að sameinuð stöndum við.
Úkraínski flóttamaðurinn Rita flúði land ásamt fjórum börnum sínum skömmu eftir að innrásin var gerð í fyrra. Hún hefur nú fundið sér breskan kærasta sem Andy heitir og búa þau skötuhjúin saman. Rita ræddi við Newsnight breska ríkisútvarpsins BBC í gærkvöldi og sagði þar frá því að hún gæti aldrei gleymt „hroðalegum hljóðunum, ofsahræðslunni og óttanum“ í kjölfar þess er Rússar hófu árás sína.
„Landið þjáist. Ég veit hvernig land mitt er og ég veit hvernig það getur verið. Ég þekki fegurð þess. Nú er öldin önnur en það getur þó snúið aftur til sinnar fyrri fegurðar. [...] Ég sé fyrir mér sumarið, það verður hlýtt og það verður grænt. Þannig sé ég Úkraínu, tré prýdd laufskrúði og blómum, brosandi andlit og gleðitár á hvörmum,“ sagði Rita meðal annars í samtali sínu við Newsnight.