„Engin önnur ákvörðun sem kemur til greina“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er stríð í Evrópu og við eins og aðrar þjóðir höfum tekið ákvörðun um að standa með Úkraínu og það er engin önnur ákvörðun sem kemur til greina,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, er blaðamaður ræðir við hana um móttöku flóttamanna frá Úkraínu nú þegar eitt ár er liðið frá því að innrás Rússa hófst.

Katrín ítrekar mikilvægi þess að ekki sé nóg að taka eingöngu á móti fólki heldur skiptir líka máli hvernig það sé gert.

„Flest sem koma hingað eru ekkert endilega að stefna að dvelja hér langdvölum en svo getur teygst úr því og skiptir þá miklu máli að fólk geti tekið virkan þátt í samfélaginu sé virkt og geti nýtt tímann ýmist til að vinna eða fara í nám.“

Tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum

Í því samhengi nefnir Katrín íslenskukennslu sem að hennar mati skiptir gríðarlega miklu máli.

„Við búum að því að við tölum hér tungumál sem að mjög fá tala í heiminum. Þetta snýst auðvitað alls ekki bara um flóttafólk þetta snýst um það hversu hátt hlutfall íbúa á íslandi eru af erlendu bergi brotin og þá auðvitað þurfum við að fara að velta því fyrir okkur hvort að við ætlum að leggja áherslu á það hvort að íslenska verði áfram töluð á öllum sviðum samfélagsins og eðli málsins samkvæmt er það flókið.“

Afstaða hennar er skýr: „Við þurfum bara að leggja dálítið á okkur og horfa til annarra þjóða, til að ákveða hvernig við ætlum að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins.

En við þurfum líka að vera meðvituð um að þetta skapar álag því verkefnið er viðurhlutamikið. Það er augljóslega annað verkefni að kenna fjölbreyttum hóp með ólíkan uppruna en að kenna mjög einsleitum hóp, svo eitt dæmi sé tekið. Við getum heimfært það upp á flest svið samfélagsins.“

„Jafn miklir Íslendingar og við hin“

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að aukinn fjöldi flóttamanna kunni að ýta undir fordóma í samfélaginu, segir Katrín ekki útilokað að bakslag geti orðið í þeim málum og eigi það jafnt við útlendinga sem og aðra minnihlutahópa.

„Það skiptir gríðarlegu máli að við stöndum þannig að verki að þetta geti verið farsæl þróun fyrir okkur öll. Það er mjög margt erlent fólk sem kemur hingað að vinna. Mjög margt af því fólki ílengist og stofnar hér fjölskyldu og heimili og eru jafn miklir Íslendingar og við hin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert