Kínverjar hvetja til friðarviðræðna

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP/Noel Celis

Kínverjar hvetja til friðarviðræðna í nýjum tillögum sínum um hvernig skuli binda enda á stríðið í Úkraínu.

Tillögurnar eru í 12 liðum. Þar er hvatt til „pólitískra sátta“ vegna stríðsins.

Vesturlönd hafa undanfarið sakað Kínverja um að íhuga að senda Rússum vopn. Kínversk stjórnvöld hafa vísað því á bug.

Í tillögum Kínverja, sem voru birtar í tilefni þess að eitt ár er í dag liðið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu, eru tengdir aðilar hvattir til að „styðja Rússa og Úkraínu við að horfa í sömu átt og ná aftur beinu samtali eins fljótt og auðið er“.

Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP/Sergei Bobylyov

Einnig kemur fram andstaða Kína, bæði við notkun kjarnorkuvopna og að hóta því að nota þau. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur hótað því að beita kjarnorkuvopnum í deilunni.

Bandaríkin gagnrýndu tillögur Kínverja harðlega og sagði þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta að stríðinu „gæti lokið á morgun ef Rússar hætta árásunum sínum á Rússland og draga herlið sitt til baka“.

„Úkraína var ekki að ráðast á Rússland. NATO var ekki að ráðast á Rússland. Bandaríkin voru ekki að ráðast á Rússland,“ sagði ráðgjafinn Jake Sullivan við CNN.

„Rússar hafa nú þegar tapað stríðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert