Maður á fimmtugsaldri, sem handtekinn var á þriðjudag og hefur játað að hafa skotið annan í fótinn með hríðskotariffli við verslun IKEA á Furuset í Ósló, er eiginmaður yfirmanns á ritstjórn norska fjölmiðilsins Dagbladet.
Frá þessu greindi dagblaðið VG á vefsíðu sinni í gærkvöldi og ræðir meðal annars við Anki Gerhardsen blaðamann sem gjarnan skrifar gagnrýni á norska fjölmiðla í dagblaðið Aftenposten. Segir Gerhardsen Aller Media, útgáfufélag Dagbladet, verða að greina frá tengslunum en það hefur Dagbladet nú gert á vefsíðu sinni þar sem tekið er fram að viðkomandi starfsmaður komi ekki að vinnslu frétta af máli eiginmanns síns sem í gær var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.
„Við fjöllum um málið á hefðbundinn hátt,“ segir Frode Hansen, fréttastjóri Dagbladet, í samtali við VG, „meira en það höfum við ekki um þetta að segja fyrir utan að við erum ekki með neinn málarekstur innanhúss hjá okkur í tengslum við þetta. Almennt fylgjum við ákveðnum verklagsreglum um tengsl sem leitt geta til vanhæfis starfsfólks okkar og ritstjórnar.“
Umræddur yfirmaður á ritstjórn Dagbladet starfaði reyndar áður hjá VG þótt þar hafi ekki verið um stjórnunarstöðu að ræða og tekur VG þetta fram í skrifum sínum um málið.
Áðurnefnd Gerhardsen kveður tengslin geta haft neikvæð áhrif á trúverðugleika fjölmiðilsins hvað þetta mál snertir, en hún ræddi við VG áður en Dagbladet birti upplýsingarnar um þau.
Þá ræðir VG við siðfræðinginn Gunnar Bodahl-Johansen sem kveður málið flókið og vissulega geti það vakið spurningar um trúverðugleika. „Þessi staða er vitaskuld vandamál, ekki eingöngu hvað viðkomandi manneskju snertir, heldur fjölmiðilinn allan,“ segir Bodahl-Johansen og bendir enn fremur á að fyrst og síðast séu það lesendur sem taki afstöðu til þess hvort þeir treysti fjölmiðlum.
Rifjar siðfræðingurinn upp sambærilegt mál frá 2006 sem umræða varð um á sínum tíma, þegar í ljós kom að Karianne Solbrække, fréttastjóri TV2, hafði átt í ástarsambandi við Arfan Bhatti sem hlaut dóm árið 2008 fyrir þátt sinn í skotárás á bænahús gyðinga í Ósló í september 2006. Var talið sannað að Bhatti hefði hvatt til árásarinnar en hann var sýknaður af að hafa lagt á ráðin um hana.
Nú liggur Bhatti undir grun um að hafa starfað með Zaniar Matapour sem gerði skotárás á Oslo Pride-hátíðinni 25. júní í fyrra og varð þar tveimur að bana auk þess að særa 21. Gæti Bhatti átt allt að 30 ára dóm yfir höfði sér verði hann sekur fundinn að þessu sinni.