Skotárásarmaður kvæntur yfirmanni á Dagbladet

Frode Hansen, fréttastjóri Dagbladet, segir fjölmiðil sinn fjalla um árásarmálið …
Frode Hansen, fréttastjóri Dagbladet, segir fjölmiðil sinn fjalla um árásarmálið á hefðbundinn hátt hvað sem tengslum yfirmanns þar við grunaða líður. Ljósmynd/Journalisten.no/Marte Vike Arnesen

Maður á fimm­tugs­aldri, sem hand­tek­inn var á þriðju­dag og hef­ur játað að hafa skotið ann­an í fót­inn með hríðskotariffli við versl­un IKEA á Furu­set í Ósló, er eig­inmaður yf­ir­manns á rit­stjórn norska fjöl­miðils­ins Dag­bla­det.

Frá þessu greindi dag­blaðið VG á vefsíðu sinni í gær­kvöldi og ræðir meðal ann­ars við Anki Ger­h­ardsen blaðamann sem gjarn­an skrif­ar gagn­rýni á norska fjöl­miðla í dag­blaðið Af­ten­posten. Seg­ir Ger­h­ardsen Aller Media, út­gáfu­fé­lag Dag­bla­det, verða að greina frá tengsl­un­um en það hef­ur Dag­bla­det nú gert á vefsíðu sinni þar sem tekið er fram að viðkom­andi starfsmaður komi ekki að vinnslu frétta af máli eig­in­manns síns sem í gær var úr­sk­urðaður í fjög­urra vikna gæslu­v­arðhald.

Fylgi ákveðnum verklags­regl­um

„Við fjöll­um um málið á hefðbund­inn hátt,“ seg­ir Frode Han­sen, frétta­stjóri Dag­bla­det, í sam­tali við VG, „meira en það höf­um við ekki um þetta að segja fyr­ir utan að við erum ekki með neinn mála­rekst­ur inn­an­húss hjá okk­ur í tengsl­um við þetta. Al­mennt fylgj­um við ákveðnum verklags­regl­um um tengsl sem leitt geta til van­hæf­is starfs­fólks okk­ar og rit­stjórn­ar.“

Um­rædd­ur yf­ir­maður á rit­stjórn Dag­bla­det starfaði reynd­ar áður hjá VG þótt þar hafi ekki verið um stjórn­un­ar­stöðu að ræða og tek­ur VG þetta fram í skrif­um sín­um um málið.

Áður­nefnd Ger­h­ardsen kveður tengsl­in geta haft nei­kvæð áhrif á trú­verðug­leika fjöl­miðils­ins hvað þetta mál snert­ir, en hún ræddi við VG áður en Dag­bla­det birti upp­lýs­ing­arn­ar um þau.

Þá ræðir VG við siðfræðing­inn Gunn­ar Bodahl-Johan­sen sem kveður málið flókið og vissu­lega geti það vakið spurn­ing­ar um trú­verðug­leika. „Þessi staða er vita­skuld vanda­mál, ekki ein­göngu hvað viðkom­andi mann­eskju snert­ir, held­ur fjöl­miðil­inn all­an,“ seg­ir Bodahl-Johan­sen og bend­ir enn frem­ur á að fyrst og síðast séu það les­end­ur sem taki af­stöðu til þess hvort þeir treysti fjöl­miðlum.

Rifjar siðfræðing­ur­inn upp sam­bæri­legt mál frá 2006 sem umræða varð um á sín­um tíma, þegar í ljós kom að Kari­anne Sol­brække, frétta­stjóri TV2, hafði átt í ástar­sam­bandi við Arf­an Bhatti sem hlaut dóm árið 2008 fyr­ir þátt sinn í skotárás á bæna­hús gyðinga í Ósló í sept­em­ber 2006. Var talið sannað að Bhatti hefði hvatt til árás­ar­inn­ar en hann var sýknaður af að hafa lagt á ráðin um hana.

Nú ligg­ur Bhatti und­ir grun um að hafa starfað með Zani­ar Mata­pour sem gerði skotárás á Oslo Pri­de-hátíðinni 25. júní í fyrra og varð þar tveim­ur að bana auk þess að særa 21. Gæti Bhatti átt allt að 30 ára dóm yfir höfði sér verði hann sek­ur fund­inn að þessu sinni.

VG

TV2

Dag­bla­det grein­ir frá tengsl­um

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert