Frímerki með veggmynd af Vladimír Pútín Rússlandsforseta í júdóbúning hafa verið gefin út í Úkraínu, en myndin er eftir huldulistamanninn Banksy.
Frímerkin eru gefin út vegna þess að ár er liðið frá innrás Rússa í landið. Veggmyndin leit dagsins ljós í nóvember á síðasta ári og er á rústum húss sem hrundi í sprengjuárás rússneska hersins í bænum Borodíanka, nálægt höfuðborginni Kænugarði.
Langar biðraðir mynduðust í Kænugarði á föstudag þegar íbúar keyptu nýju frímerkin í pósthúsinu Holovposhtamt, að því er BBC greinir frá.
Verkið sýnir mann sem líkist Pútín í júdóbúning þar sem hann er snúinn niður af ungum dreng.
Ýmis listaverk eftir Banksy má finna á byggingum í þó nokkrum úkraínskum bæjum sem hafa orðið einna verst úti í stríðinu.
Bærinn Borodíanka var hernuminn af Rússum á fyrstu dögum stríðsins, en var endurheimtur af Úkraínumönnum í vor í fyrra.