Málamiðlun ekki í sjónmáli

Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði.
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði. mbl.is/Árni Sæberg

Engar hugmyndir um málamiðlanir hafa komið fram sem auka líkur á friðarviðræðum mili Rússlands og Úkraínu. Þetta segir Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, en ár er nú liðið frá innrás Rússa. 

„Ekkert bendir til þess að Rússar ætli að láta af hernaði sínum í Úkraínu eða draga herlið sitt til baka. Pútín dregur upp þá mynd að hér sé um að ræða tilvistarstríð við Vesturlönd, en á sama tíma heldur hann því fram – með rökum sem sverja sig í ætt við ný-nýlendustefnu – að Rússlandi geti gert tilkall til Úkraínu af sögulegum ástæðum. Úkraínumenn hafa sagst ætla að endurheimta öll landsvæði sem Rússar hafa lagt undir sig, þar á meðal Krímskaga. Og Rússar vilja halda öllum þeim svæðum sem þeir hafa „innlimað“ og jafnvel fleirum,“ segir Valur.

Hann bendir á, að Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var á móti því að Úkraína fengi aðild að NATO áður en innrásin hófst, hafi skipt um skoðun í ljósi þess að landið þurfi á einhvers konar öryggistryggingu að halda eftir að stríðinu lýkur. Hann hafi lagt til að vopnahlé verði samið á grundvelli stöðunnar eins og hún var fyrir innrás Rússa, sem þyrfti þó ekki að vera forsenda fyrir friðarsamningum.

Skiptar skoðanir

„En á Vesturlöndum eru skoðanir skiptar; þótt mikið sé rætt um að Úkraínumenn „verði að vinna stríðið“ túlka sumir það svo að Úkraínumenn komist ekki hjá því að gefa eftir land, einkum Krímskaga. Aðrir telja hins vegar að það eigi að senda Rússum skýr skilaboð um að vestræn ríki séu reiðubúin að styða Úkraínumenn svo lengi sem þeir þurfa á aðstoð að halda. Ef vestrænir ráðamenn neyða Úkraínumenn til að hefja friðarviðræður mundu Rússar setja fram hámarkskröfur og gera aðeins tilslakanir til málamynda áður en þeir héldu hernaðinum áfram síðar.“

​Herprestur biður fyrir úkraínskum hermönnum í Donetsk í vikunni.
​Herprestur biður fyrir úkraínskum hermönnum í Donetsk í vikunni. AFP/Yasuyoshi Chiba ​


Að áliti Vals endurspeglar þessi skoðanamunur ólíkar áherslur meðal vestrænna ríkja varðandi Úkraínustríðið. Þjóðir eins og Þjóðverjar og Frakkar hafi veitt Úkraínu hlutfallslega minni hernaðarstuðning en Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar og Eystrasaltsþjóðirnar. Þrátt fyrir það hafi vestræn samstaða haldið – og ástæðan kunni að vera að sú að svigrúm hafi verið gefið fyrir rökræður um álitamál eins og vopnasendingar. „Bandaríkjamenn og aðrar vestrænar þjóðir eru vitaskuld einnig meðvitaðar um stöðu Rússlands sem kjarnorkuveldis.“

Nánar er rætt við Val um stríðið í Úkraínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert