Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hélt því fram í viðtali við ríkissjónvarp Rússlands, að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, NATO, væru nú þegar að taka þátt í stríðinu í Úkraínu með því að gefa Úkraínumönnum vopn.
„Þau eru að senda fleiri milljarða Bandaríkjadala til Úkraínu í formi vopna. Það er ekkert annað en þátttaka.“
Þá væri það ætlun vesturlandannna að sundra Rússlandi. Sagði hann ljóst að Vesturlöndin hefðu einungis áhuga á að mynda tengsl við Rússa, ef búið væri að sundra þeim upp í fleiri litlar einingar. „Aðeins þá munu þau mögulega samþykkja okkur inn í hina svokölluðu fjölskyldu siðmenntaðs fólks.“
Pútín sagði ljóst að það sem Rússar stæðu frammi fyrir væri barátta við heim sem væri að mótast eftir hagsmunum eins ríkis, Bandaríkjanna. Hann teldi Rússum skylt að bregðast við þessum tilraunum Bandaríkjanna til að byggja upp sína eigin heimsmynd eftir fall Sovét-ríkjanna.