Að minnsta kosti 59 drukknuðu þegar bát hvolfdi við strendur bæjarins Crotone í suðurhluta Ítalíu í morgun, þar á meðal nokkurra mánaða gamalt barn. Fleiri en tvö hundruð flóttamenn voru um borð í bátnum, að sögn björgunarmanna.
Ofhlaðinn báturinn fór í sundur í miklum öldugangi og talið er að meirihluti flóttafólksins sem var um borð hafi komið frá Íran og Afganistan.
Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, hét því í kosningabaráttu sinni í fyrra að stemma stigu við straumi innflytjenda að ströndum Ítalíu.
Hún sagði það glæpsamlegt að sigla varla tuttugu metra löngum bát með tvö hundruð manns um borð.
Fyrr í dag greindi ítalska landhelgisgæslan frá því að 43 lík hefðu fundist meðfram ströndinni og 80 manns fundist á lífi.