Spænskur karlmaður hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir að beita eiginkonu sína ofbeldi í beinni útsendingu á samfélagsmiðlinum TikTok.
Eiginkonan neitaði að leggja fram kæru vegna málsins og bar ekki vitni fyrir dómi. Fyrir dómi var maðurinn talinn hafa gerst sekur um ofbeldisbrot gegn konu sinni og var látinn sæta eins árs fangelsi eins og áður sagði. Þá var hann látinn sæta nálgunarbanni.
Málið má rekja til þess þegar maðurinn sló konuna sína í andlitið í svokölluðum „TikTok bardaga“ (e. TikTok battle). Myndbandið fór í dreifingu á Spáni og leiddi það til þess að maðurinn var ákærður.
Fyrir dómi lá það fyrir að lögreglan hafði áður haft afskipti af manninum á heimili hans og konunnar og var það talið sanna langvarandi ofbeldi mannsins gegn konunni.