Lögreglan í Norrköping í Svíþjóð skaut mann utan við lögreglustöðina þar í borginni síðdegis í dag eftir að sá hafði veist að lögregluþjóni og stungið hann en meiðsli þess sem fyrir stungunni varð eru alvarleg eftir því sem sænska dagblaðið Aftonbladet greinir frá.
Kallað var eftir aðstoð vegna atburðarins klukkan 15:49 að sænskum tíma í dag, 14:49 að íslenskum, og dreif fjöldi lögreglubifreiða að lögreglustöðinni. Sá sem stunginn var hafði þá lokið vakt og var á leið út af lögreglustöðinni þegar maðurinn réðst að honum og stakk með einhvers konar eggvopni.
Maður á sjötugsaldri var handtekinn, grunaður um verknaðinn, og var hann fluttur á sjúkrahús í kjölfar þess er annar lögregluþjónn kom aðvífandi og skaut hann í fótinn eftir að hann veittist að hinum fyrri. Lögregla þekkir til hins handtekna frá fyrri málum og liggur hann nú undir grun um tilraun til manndráps.