Breskir eftirlitsaðilar tilkynntu í gær að verðþak orkureikninga yrði lækkað frá og með apríl.
Breskur almenningur stendur engu að síður enn frammi fyrir hækkandi orkuverði vegna ákvörðunar breskra stjórnvalda um að draga úr aðgerðum til verndar neytendum vegna hækkandi orkuverðs.
Breska eftirlitsstofnunin Ofgem segir að árleg meðalupphæð sem orkusalar geti rukkað fyrir heimili myndi dragast saman um næstum fjórðung með nýju verðþaki. Mörg heimili standa aftur á móti frammi fyrir hækkun á orkureikningum ef stjórnvöld draga úr fjárhagsaðstoð.
Sharon Graham, aðalritari breska verkalýðsfélagsins Unite, segir „nýjustu ráðstafanir Ofgem á orkuverðsþakinu gera nánast ekkert til að létta þrýstingi á vinnandi fólk”.
Orkuverð og verðbólga hafa aukist til muna eftir innrás olíu- og gasframleiðandans Rússlands inn í Úkraínu fyrir ári síðan og stjórnvöld hafa keppst við að komast yfir orkubirgðir og koma á niðurgreiðslum til að draga úr útgjöldum heimila.
Árleg verðbólga í Bretlandi hefur lækkað undanfarna mánuði en er enn yfir 10 prósentum, fimm sinnum hærri en viðmið Englandsbanka. Margir Bretar hafa fundið fyrir afleiðingum hækkandi framfærslukostnaðar og hækkandi vaxta breska Seðlabankans og hefur það leitt til stærstu verkfallsaðgerða sem Bretland hefur staðið frammi fyrir í meira en áratug.
Ríkisstjórn Rishi Sunak forsætisráðhrera hefur ekki orðið við ákalli um launahækkanir fyrir opinbera starfsmenn í takt við verðbólgu. Búist er við enn frekari verkföllum í næsta mánuði, einkum meðal hjúkrunarfræðinga og kennara.