Hjólreiðamaður skaut kött ráðherra

Kötturinn hafði verið í eigu fjölskyldunnar lengi. Myndin er úr …
Kötturinn hafði verið í eigu fjölskyldunnar lengi. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Ítalski hjólreiðamaðurinn Antonio Tiberi hefur hlotið 4.000 evra sekt, eða sem samsvarar rúmlega 600.000 kr., fyrir að hafa drepið kött ráðherra í San Marínó með því að skjóta dýrið. 

Tiberi, sem er 21 árs gamall atvinnumaður í hjólreiðum, er sagður hafa verið að prófa loftriffil sem hann miðaði á höfuð kattarins og hleypti af. 

Kötturinn var í eigu Federico Pedini Amati, sem er ráðherra ferðamála í San Marínó. „Kötturinn var ekki að angra neinn,“ sagði hann í samtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera.

„Hann hafði verið í okkar eigu lengi. Þriggja ára gömul dóttir mín Lucia elskaði hann. Þú getur ekki drepið gæludýr og komist upp með það að greiða aðeins 4.000 evra sekt,“ bætti hann við. 

Tiberi, sem keppir fyrir liðið Trek-Segafredo, flutti til San Marínó nýverið. 

„Ég virði það að strákurinn viðurkenndi sök. En að því sögðu þá þurfum við ekki að veita slíku fólki aðsetur,“ sagði ráðherrann enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert