Markar kaflaskil í samskiptum Bretlands og ESB

Rishi Sunak og Ursula von der Leyen kynna samkomulagið um …
Rishi Sunak og Ursula von der Leyen kynna samkomulagið um stöðu Norður-Írlands á blaðamannafundi í Windsor-kastala í gær. AFP

Bretland og Evrópusambandið hafa náð samkomulagi um stöðu Norður-Írlands í tollamálum þremur árum eftir að Bretar gengu úr sambandinu.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kom til Bretlands í gær og átti fund með Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í Windsor-kastala þar sem gengið var frá samkomulaginu. Von der Leyen átti einnig fund með Karli konungi Bretlands í Windsor.

Sunak sagði á blaðamannafundi í Windsor í gær að samkomulagið markaði kaflaskil í samskiptum Bretlands og Evrópusambandsins, tryggði snurðulaus viðskipti með vörur og lyf innan alls Bretlands, treysti í sessi stöðu Norður-Írlands innan Bretlands og styrkti friðarsamkomulagið sem gert var á Norður-Írlandi árið 1998.

Í samkomulaginu felst, að teknar verða upp svonefndar grænar og rauðar leiðir milli Bretlands og Norður-Írlands. Breskar vörur, sem ekki eiga að fara lengra en til Norður-Írlands, munu fara grænu leiðina sem þýðir að þær þarf ekki að tollskoða og skriffinnska verður í lágmarki. Breskar vörur, sem eiga að fara til Írlands, fara rauðu leiðina þar sem tollskoðun er nákvæmari.

Norður-Írland fékk sérstaka stöðu í útgöngusamkomulagi Brexit-viðræðnanna og þótt reglur ESB giltu ekki lengur í Englandi, Skotlandi og Wales var því öðruvísi farið í Norður-Írlandi þar sem héraðið deilir landamærum við Írland sem er aðili að ESB. Til að komast hjá efnislegum landamærum milli landanna tveggja sömdu fulltrúar ESB og Bretlands um að tollskoðun varnings á leið til Norður-Írlands færi fram annars staðar í konungdæminu. Norðurírskir sambandssinnar sögðu það í raun færa landamærin út í Írlandshaf en Sunak sagði í gær, að með samkomulaginu nú væri þessi staða úr sögunni.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert