Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir ástandið í kringum víglínu borgarinnar Bakmút verða sífellt erfiðara.
„Ástandið verður flóknara og flóknara,“ sagði Selenskí í ræðu í gærkvöldi.
„Óvinurinn heldur áfram að eyðileggja allt sem hægt er nota til vernda stöðu okkar,“ sagði hann og bætti við að úkraínskir hermenn sem berjast fyrir Bakmút séu „sannar hetjur“.
Bardaginn um iðnaðarborgina Bakmút í héraðinu Dónetsk í austurhluta Úkraínu hefur verið sá lengsti síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir ári síðan.
Selenskí hefur talað um að Úkraínumenn muni berjast um Bakmút eins lengi og þeir mögulega geta.
Að ná borginni á sitt vald yrði mikill sigur fyrir rússnesk stjórnvöld en sérfræðingar segja að slíkur sigur yrði aðeins táknrænn vegna þess að borgin hafi lítið hernaðarlegt gildi.