Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Grikklandi vegna lestarslyss morgunsins nærri borginni Larissa. Samgönguráðherra landsins hefur sagt af sér vegna ástands samgangna í landinu og hefur lestarstöðvarstjóri í Larissa verið handtekinn í kjölfar slyssins.
Tugir eru særðir og 36 látnir eftir árekstur farþegalestar og flutningalestar nærri borginni Larissa í Grikklandi í morgun. Rúmlega 350 manns voru í farþegalestinni og var stór hluti þeirra ungir námsmenn.
Í kjölfar slyssins hafa æðstu embættismenn landsins tjáð sig á mismunandi máta. Forsætisráðherra landsins, Kyriakos Mitsotakis hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu vegna slyssins en hún mun hefjast á morgun og standa í þrjá daga. Þá hefur hann heitið því að komast til botns í því hvað olli slysinu og koma í veg fyrir að það geti gerst aftur.
Þá hefur samgönguráðherra Grikklands, Kostas Karamanlis sagt sig frá embætti eftir slysið. Þegar hann tilkynnti ákvörðun sína sagði hann lestarkerfi landsins ekki standast kröfur 21. aldarinnar. Ríkisstjórnin hafi gert það sem þau gátu til þess að bæta það sem hafi verið til staðar.
Lestarstöðvarstjóri nærri Larissa hefur verið handtekinn í kjölfar slyssins og greinir BBC frá því að hann hafi verið sakaður um manndráp og alvarlegar líkamsmeiðingar af gáleysi. Hann hafi í kjölfarið neitað allri sök og sagt vandamálin sem hafi ollið slysinu hafa verið af tæknilegum toga.