Fjöldi látinna kominn upp í 36

Slysið varð hálfa vegu á milli Aþenu og Thessaloniku, nærri …
Slysið varð hálfa vegu á milli Aþenu og Thessaloniku, nærri bænum Larissa á Grikklandi. Yfirvöld hafa staðfest að allavega 36 hafi látist, en enn er fólks leitað í lestarvögnunum. AFP/Zekas LEONIDAS

Grísk yfirvöld hafa staðfest að fjöldi látinna eftir lestarslysið í nágrenni borgarinnar Larissa sé nú kominn upp í 36. Enn er unnið að því að ná fólki úr lestarvögnunum og gæti talan því hækkað enn frekar. Lestarslysið hefur verið sagt það versta í sögu Grikklands.

Lestirnar tvær sem skullu saman voru annars vegar farþegalest og hins vegar flutningalest. Um borð í farþegalestinni voru 350 farþegar, en fjórir fremstu vagnar hennar fóru út af sporinu í árekstrinum. Konst­ant­in­os Ag­orastos, héraðsstjóri í Thessa­ly-héraði í Grikklandi sagði í morgun að af þeim væru fremstu tveir vagnarnir „nán­ast al­gjör­lega eyðilagðir“, en eld­ur kom upp í þeim.

Farþegalestin skall á flutningalest sem kom úr gagnstæðri átt. Við …
Farþegalestin skall á flutningalest sem kom úr gagnstæðri átt. Við það fóru allavega fjórir vagnar lestarinnar út af sporinu og kviknaði í fremstu vögnunum. AFP/Zekas LEONIDAS

Auk þeirra sem létust særðust allavega 85 og voru 53 áfram á sjúkrahúsi eftir skoðun.

Lestirnar lögðu báðar af stað um 19:30 að staðartíma, flutningalestin frá Aþenu, en farþegalestin frá Thessaloniku. Stuttu fyrir miðnætti fengu viðbragðsaðilar tilkynningu um slysið. Yorgos Manolis, bæjarstjóri í Tempi, nálægum bæ, sagði fréttamönnum að fjöldi stúdenta hefði verið um borð í lestinni, en þeir voru á leið heim til Thessaloniku eftir langa helgi.

Yfir 150 slökkviliðsmenn, fjöldi slökkviliðsbíla og fjórir kranar hafa komið að björgunarstörfum í morgun. Þá voru einnig um þrátíu sjúkrabílar á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert