Óvenjuleg stórhríð og vetrarfærð geisar á spænsku Miðjarðarhafseyjunni Mallorca. Stormurinn Juliette hefur herjað sérstaklega á fjallasvæði norðarlega á eyjunni og hefur mörgum vegum verið lokað á svæðinu. Björgunarsveitir á staðnum hafa sig allar við að bjarga fólki sem eru strandaglópar í kjölfarið.
Snjódýptin hefur mælst yfir einum metra í fjallagarðinum Serra de Tramuntana frá því óveðrið hófst í fyrradag að sögn spænsku veðurstofunnar AEMET.
Yfirvöld á Baleareyjum sögðu í yfirlýsingu að unnið væri að því að rýma svæði þar sem fólk hefði innilokast og að allir sem hafi verið fluttir af björgunarsveitum séu við góða heilsu. Um 90 liðsaukar úr neyðardeild spænska hersins hafa verið sendir á staðinn og vinna nú að því að ryðja vegi.
Yfirvöld á svæðinu hafa biðlað til almennings að leggja ekki í ferðir upp á fjallið til að bera snjóinn augum, en snjókomur heyra til undantekninga á eyjunni sem hefur um 300 sólskinsdaga á ári, samkvæmt ferðamálastofu Mallorca.