Að minnsta kosti 32 eru látnir eftir lestarslys í Grikklandi í nótt og 85 eru slasaðir. Skullu tvær lestir saman og fóru út af sporinu nálægt borginni Larissa seint í nótt samkvæmt yfirvöldum á svæðinu.
Talsmaður slökkviliðsins á svæðinu staðfesti við fjölmiðla að fjöldi lestarvagna hafi farið út af sporinu eftir árekstur lestanna, hálfa vegu á milli Aþenu og Thessaloniku.
Fjórir fyrstu vagnarnir í farþegalestinni sem skall á flutningalest í Grikklandi í nótt fóru út af sporinu í slysinu. Af þeim eru fremstu tveir vagnarnir „nánast algjörlega eyðilagðir“, en eldur kom upp í þeim. Þetta var haft eftir Konstantinos Agorastos, héraðsstjóra í Thessaly-héraði í Grikklandi á sjónvarpsstöðinni Skai TV þar í landi í morgun.
Önnur lestin var með 350 farþega um borð, en hin var flutningalest. Af þeim 85 sem slösuðust eru áfram 53 á sjúkrahúsi samkvæmt talsmanninum. Þá sagði hann jafnframt að fleiri væru enn fastir í lestunum, en unnið væri að því að ná fólkinu út.
Grískir miðlar segja slysið hið alvarlegasta í sögu landsins.
Lestirnar lögðu báðar af stað um klukkan 19.30 að staðartíma, flutningalestin frá Aþenu, en farþegalestin frá Thessaloniku. Stuttu fyrir miðnætti fengu viðbragðsaðilar tilkynningu um slysið.
Viðbragðsaðili tjáði sig við AFP fréttastofuna í morgun og sagði að fimm klukkustundum eftir slysið væri enn verið að ná fólki úr flakinu.
Einn lestarvagninn er alveg gjöreyðilagður sem gerir alla vinnu viðbragðsaðila erfiðari, auk þess sem reyk og eld leggur frá öðrum vagni. Sagði ríkisfréttastöðin ERT að fólk hefði verið innilokað í vagninum sem kviknaði í.
Yorgos Manolis, bæjarstjóri í Tempi, nálægum bæ, sagði fréttamönnum að fjöldi stúdenta hefði verið um borð í lestinni, en þeir voru á leið heim til Thessaloniku eftir langa helgi.
Fréttin hefur verið uppfærð.