Styttan af Litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn varð fyrir barðinu á skemmdarvörgum, en steinninn sem hún situr á hefur verið málaður í litum rússneska fánans. Frá þessu greinir danska ríkisútvarpið.
Ekki er víst hver framdi skemmdarverkið eða hvenær það átti sér stað en lögreglan í Kaupmannahöfn hefur hafist handa við að rannsaka málið.
Hópur fólks hafði safnast saman á svæðinu til þess að skoða nýju liti hafmeyjunnar.
Starfsfólk borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn var fengið til að hreinsa málninguna af steininum og er hann nú aftur orðinn grár.
Þetta er ekki fyrsta sinn sem styttan hefur orðið fyrir skemmdarverki, enda er hún 110 ára gömul. Fólk hefur atað hafmeyjuna í málningu og jafnvel höggvið af henni höfuðið.