Handtekinn eftir að sprengja fannst á flugvelli

Búnaðurinn kom í ljós við eftirlit á flugvellinum.
Búnaðurinn kom í ljós við eftirlit á flugvellinum. Ljósmynd/Colourbox

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók á mánudag karlmann sem er sakaður hafa mætt með sprengjubúnað á flugvöll í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. 

Maðurinn, hinn fertugi Mark Muffley, er sakaður um að hafa komið búnaðinum fyrir í ferðatösku sem hann innritaði í flug til Orlando í Flórída. 

Hann flúði þegar nafn hans var kallað upp í hátalarakerfi flugvallarsins en var handtekinn heima hjá sér um kvöldið. 

Yfirvöld flugvallaröryggis í Bandaríkjunum, TSA, segja að starfsmenn hafi orðið varir við búnaðinn við reglubundið eftirlit, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins. 

Muffley er sagður hafa bókað flug snemma morguns með Allegiant Air á Lehigh Valley-alþjóðaflugvellinum, sem er í um 105 km norður af Fíladelfíu. Um klukkustund síðar tóku starfsmenn TSA eftir einhverju óvenjulegu og höfðu samband við sérfræðinga FBI, þar á meðal sprengjusérfræðing, sem voru fengnir til að skoða búnaðinn.

Við nánari athugun þá kom í ljós að sprengjubúnaðurinn var um 7,5 cm að lengd og hafði hann verið falinn inni í fóðri ferðatöskunnar. Hann var með sprengiþræði og púðri. Í töskunni fannst meðal annars kveikjari, dós af bútangasi, rafmagnsborvél og lekastraumsrofar sem búið var að festa saman með límbandi.

Hann mun mæta fyrir dómara í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert