Alþjóðleg rannsókn bandarísku leyniþjónustunnar á Havana-heilkenninu svokallaða, hefur leitt í ljós að mjög ólíklegt sé að óvinalönd eigi sök á dularfullum sjúkdómi sem hefur hrjáð starfsmenn utanríkisþjónustu Bandaríkjanna, samkvæmt niðurstöðum sem birtar voru á miðvikudag. Ekki eru þó allir sérfræðingar sammála um niðurstöðu skýrslunnar, samkvæmt greinargerð Washington Post um málið.
Fyrsta tilvikið var tilkynnt árið 2016 í Havana, höfuðborg Kúbu, og dregur heilkennið nafn sitt af því. Um það bil 1.500 bandarískir diplómatar, leyniþjónustumenn, herforingjar og annað opinbert starfsfólk, sem flest hefur aðsetur erlendis, hefur tilkynnt um undarleg og sljóvgandi einkenni.
Einkenni hafa einkum lýst sér sem mígreni, ógleði, svimi, höfuðverkur og minnistap en sumir hafa lýst einkennunum sem sársaukafullum hljóðskynjunum.
Íhugað var hvort óvinir bandaríska ríkisins ættu í hlut og notast var við tækni til að framkalla einkennin. Þá voru allir möguleikar skoðaðir, meðal annars aðkoma Rússa, alþjóðlegra vopnasala og meira að segja geimvera.
Í nýútgefinni skýrslu kemur hins vegar fram að óvinir hafi ekki átt þátt í að valda veikindum, heldur séu langflest tilvikanna af náttúrulegum orsökum, eins og hefðbundnum sjúkdómum, umhverfisþáttum eða félagslegum aðstæðum.
Rannsókninni verður þó ekki lokað strax, þar sem enn leikur vafi á um orsök einkenna í sumum tilvikum.
William Burns, forstjóri CIA , segir í tilkynningu að stofnunin muni „áfram vera vakandi fyrir hvers kyns áhættu sem steðjar að heilsu og vellíðan starfsmanna stofnunarinnar”.
Ekki eru allir sammála skýrslu CIA, en mat hennar á skjön við mat óháðs sérfræðingahóps, á vegum NASEM-stofnunarinnar, sem á síðasta ári komst að þeirri niðurstöðu að utanaðkomandi orkugjafi gæti líklega útskýrt einkennin. Nefndin, lagði til að erlendir óvinir hefðu getað nýtt sér rafsegulorku á örbylgjutíðni sem gerði það að verkum að fólk veikist.
Niðurstöður sérfræðinganefndarinnar voru einnig í samræmi við fyrri niðurstöður NASEM, sem sögðu stýrða, púlsandi, útvarpsbylgjuorku vera líklegan orsakavald.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, hefur lýst áhyggjum á einkennum utanríkisstarfsmanna og segist trúa því að eitthvað hafi komið fyrir. Blinken hefur samkvæmt embættismönnum lýst efasemdum á einni af kenningum FBI, að um fjöldahysteríu sé að ræða.