Óeirðir brutust út í Grikklandi í gærkvöldi í kjölfar lestarslyss þar sem að minnsta kosti 43 létu lífið.
BBC greinir frá því að átök hafi brotist út á milli lögreglu og mótmælenda fyrir utan höfuðstöðvar Hellenic Train, sem sér um lestarkerfi ríkisins, í höfuðborginni Aþenu.
Þá var einnig efnt til mótmæla í Þessalóníku og borginni Larissu, nærri þar sem slysið varð á þriðjudagskvöld.
Lestirnar tvær sem skullu saman voru annars vegar farþegalest og hins vegar flutningalest. Um borð í farþegalestinni voru 350 farþegar, en fjórir fremstu vagnar hennar fóru út af sporinu í árekstrinum. Stór hluti farþeganna voru ungir námsmenn.
Yfirvöld hafa sett af stað sjálfstæða rannsókn á slysinu og þá var lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg.
Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra sagði að „hræðileg mannleg mistök“ hefðu valdið slysinu.
59 ára gamall lestarstöðvarstjóri nærri Larissa hefur verið handtekinn í kjölfar slyssins og er hann sakaður um manndráp og alvarlegar líkamsmeiðingar af gáleysi. Hann neitar sök og segir slysið hafa orðið vegna tæknilegra mistaka.
Þá sagði samgönguráðherra landsins af sér vegna ástands samgangna í landinu.