Amma felldi svikahrappa á eigin bragði

Bednarik lýsir lævíslegri tálbeituaðgerð sinni á blaðamannafundi lögreglunnar og hvetur …
Bednarik lýsir lævíslegri tálbeituaðgerð sinni á blaðamannafundi lögreglunnar og hvetur eldri borgara til að hafa þegar samband við lögreglu berist þeim grunsamleg símtöl. Ljósmynd/Lögreglan í Windsor

Bonnie Bednarik, kanadísk amma á áttræðisaldri, kallar sannarlega ekki allt ömmu sína eins og sagt er. Bednarik sneri vörn í sókn þegar óprúttnir svikahrappar sóttu að henni og lokkaði þá í sína eigin gildru.

Bednarik, sem búsett er í Windsor í Ontario, lét ekki blekkjast þegar maður nokkur hringdi í hana á miðvikudaginn og kvaðst vera barnabarn hennar. Væri hann í kröggum og þyrfti sárlega fé til að greiða tryggingu sem bjarga ætti honum úr fangelsi. Þessu fylgdi nákvæm saga af bílslysi sem hann lenti í með vini sínum og hefði hann verið handtekinn þegar lögregla fann ótilgreindar pillur í hanskahólfinu.

„Vertu svo væn, þetta er barnabarnið þitt,“ sagði hringjandinn þegar Bednarik spurði um deili á honum. Var hann gráti nær í símanum og kvaðst elska hana. Hún lagði þá lævísa snöru fyrir þennan ókunna en meinta ættingja og kvaðst mundu láta honum í té 9.300 kanadíska dali, jafnvirði tæplega 970.000 íslenskra króna.

Samið um afhendingu fjárins

Var amman ráðagóða orðin langþreytt eftir tilraunir svindlara til að hafa af henni fé. Samið var um að félagar „barnabarnsins“ kæmu á heimili Bednarik til að sækja féð, sonar- eða dóttursonurinn gat auðvitað ekki komið í eigin persónu enda í fangelsi.

Bednarik hafði svo samband við lögreglu sem sendi menn úr fjársvikadeild sinni á vettvang og handtóku þeir tvo menn, 19 og 22 ára, þegar þeir komu að ná í „tryggingarféð“. Reyndust þeir þá vera heldur loðnir um lófana, hlaðnir reiðufé frá öðrum fórnarlömbum.

Hefur lögregla haft upp á öðru fórnarlambinu og leitar nú hins svo koma megi fénu til réttmætra eigenda en amman ráðagóða hvetur eldri borgara til að hafa þegar samband við lögreglu berist þeim grunsamleg símtöl. „Fyrst af öllu skaltu ekki gefa upp nafn barnabarna, inntu viðkomandi eftir nafni. Hringdu í lögregluna. Hringdu í fjölskyldu þína,“ sagði Bednarik á blaðamannafundi sem blásið var til í kjölfar gagnaðgerðar hennar.

Milljarðar á milljarða ofan til svikara

Kanadíska and-svikamiðstöðin, The Canadian Anti-Fraud Centre, lagði fram þær upplýsingar að í fyrra hefðu henni borist skýrslur um svindl sem kostað hefði fórnarlömbin 530 milljónir kanadadala sem svarar til 55,2 milljarða íslenskra króna en sú upphæð er 40 prósentum hærri en svindlupphæð ársins á undan.

Þá greinir bandaríska alríkislögreglan FBI frá því að rúmlega 92.000 eldri borgarar í Bandaríkjunum hefðu fallið í gildrur fjársvikahrappa árið 2021 sem kostað hefðu þá 1,7 milljarða bandaríkjadala, eða tæplega 241 milljarð króna.

Windsor Star

CBC

Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert