Super-Bigote eða Ofur-Skeggi, frá Venesúela hefur vakið athygli upp á síðkastið en karakterinn er gerður í mynd forseta landsins Nicolás Maduro og berst gegn vandamálum sem hrjá landið.
Bigote þýðir yfirvaraskegg á spænsku og vísar til yfirvaraskeggs sem prýðir yfirvör bæði Maduro og Super-Bigote og veitir hinum síðarnefnda ofurkrafta sína.
Maduro breytist í Super-Bigote á skjá ríkissjónvarps Venesúela, svipað og Bruce Wayne í Batman eða Clark Kent í Súperman. Super-Bigote berst þó ekki við Jókerinn eða Lex Lúthor, heldur ljóshærðan, grímuklæddan óvin í Hvíta Húsinu í Bandaríkjunum.
Super Bigote berst þó ekki einungis gegn erlendum þjóðhöfðingjum og heimsvaldastefnu, heldur berst hann gegn vandamálum sem hafa hrjáð Venesúela undir stjórn Maduro. Í þáttunum eru vandamál þessi þó ekki ríkisstjórn Maduro að kenna heldur er það vélknúin moldvarpa sem stelur raforku landsins og skrímsli sem kemur í veg fyrir afhendingu bóluefna.
Elias Pino Iturrieta, sagnfræðingur og sérfræðingur í leiðtogadýrkun, telur tilkomu ofurhetjunnar vera hefðbundinn áróður í nýjum búningi, með það að markmiði að afvegaleiða reiði almennings gegn Maduro og vinna í staðinn aðdáun fólks.
Maduro hefur ekki notið jafn mikilla vinsælda og forveri hans Hugo Chavez, sem var og er enn í einskonar guðatölu meðal þjóðarinnar. Þrátt fyrir að Maduro hafi ekki tekist að vinna sér inn sömu vinsældir og Chavez virðist þær þó eitthvað hafa aukist með tilkomu Super-Bigote.
Ofurhetjan virðist alls staðar: á derhúfum, stuttermabolum,og veggmyndum í borgum Venesúela, og börn og fullorðnir klæða sig jafnvel í búning Super-Bigote fyrir götuhátíðir. Chavez virðist því eiga minnkandi sess í hjörtum þjóðarinnar, á meðan Maduro og Super-Bigote hreiðra þar betur um sig.