Enn brjótast út átök milli mótmælenda og lögreglu

Mótmælt hefur verið víða um Grikkland síðustu daga.
Mótmælt hefur verið víða um Grikkland síðustu daga. AFP/Spyros Bakalis

Átök brutust út í dag á milli lögreglu og mótmælenda við gríska þingið Aþenu, en þúsundir mótmælenda hafa safnast þar saman vegna mannskæðs lestarslyss sem varð nærri borginni Larissa í síðustu viku. 

Kveikt hefur verið í ruslafötum og mólótov-kokteilum kastað. Lögreglan hefur brugðist við með því að beita mótmælendur táragasi og reyksprengjum.

Mótmælendur gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa dregið lappirnar í viðhaldi á lestarkerfi landsins að gæta ekki að öryggismálum.

57 látnir og tugir slasaðir

Að minnsta kosti 57 létust í slysinu, sem varð varð með þeim hætti að farþegalest og flutningalest skullu saman eftir að hafa ekið á sömu lestarteinunum í stitthvora áttina. Tugir eru jafnframt slasaðir. 352 farþegar voru í farþegalestinni og voru það að mestu ungir námsmenn.  

Forsætisráðherra Grikklands hefur beðið aðstandendur þeirra sem lentu í slysinu afsökunar. Hann sagði færslu á Facebook-síðu sinni að árið 2023 væri ekki í lagi að tvær lestir keyrðu á sömu teinunum án þess að nokkur tæki eftir því.

59 ára lestarstöðvarstjóri í borginni Larissa var handtekinn í kjölfar slyssins og á hann að fara fyrir rétt í dag. Hann er sakaður um manndráp og líkamsmeiðingar af gáleysi og hefur viðurkennt ábyrgð sína í málinu. Verði hann sakfelldur gæti hann hlotið lífstíðardóm.

Yfirmenn mögulega sóttir til saka

Fram hefur komið að maðurinn hafi ekki gegnt starfinu lengi og hafi verið einn á svæðinu án yfirmanna á háannatíma. Þá sé einnig möguleiki á því að yfirmenn Hellenic Train, fyrirtækisins sem sjái um lestarteinana verði sóttir til saka vegna málsins.

Mikil mótmæli hafa brotist út víða um Grikkland síðustu daga í kjölfar slyssins. Mótmælendur hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega vegna lélegs ástands á lestarkerfi landsins og sagði samgönguráðherra af sér á miðvikudag.

57 létust í slysinu.
57 létust í slysinu. AFP/Sakis Mitrolidis
AFP/ Louisa Gouliamaki
AFP/ Louisa Gouliamaki
AFP/Sakis Mitrolidis
AFP/Sakis Mitrolidis
AFP/Sakis Mitrolidis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert