Fundur kínverska Alþýðuþingsins var settur í Kína um helgina. Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, ávarpaði samkomuna og sagði stefnu stjórnvalda vera að ná fram 5% hagvexti á þessu ári. Til samanburðar mældist hagvöxtur 3% á síðasta ári. Þykir þetta mjög hóflegt markmið í ljósi hagvaxtar undanfarinna áratuga og kann að vera vísbending um að fjögurra áratuga langt tímabil ævintýralegs hagvaxtar sé núna að baki.
Áhugi erlendra fjárfesta og fyrirtækja á Kína hefur minnkað mikið á undanförnum árum og leita þau í staðinn til landa á borð við Víetnam, Indland og Mexíkó. Bandaríski milljarðamæringurinn Mark Mobius, sem hefur lengi verið mjög áhugasamur um kínverska efnahagsundrið, notaði nýlegt viðtal til að vara fjárfesta sérstaklega við Kína.