Mannræningjar með fjóra í haldi

Yfirvöld í Mexíkó leggja mikla áherslu á að finna fjórmenningana.
Yfirvöld í Mexíkó leggja mikla áherslu á að finna fjórmenningana. RONALDO SCHEMIDT

Bandaríks stjórnvöld setja mikinn þrýsting á Mexíkósk yfirvöld í kjölfar þess að fjórum bandarískum borgurum var rænt í borginni Matamoros í Tamaulipas héraði í norðurhluta Mexíkó á laugardag.

Fjórmenningarnir voru teknir með valdi upp í hvítan sendibíl eftir að hleypt hafi verið af byssum samkvæmt sjónarvottum. Saklaus vegfarandi lét lífið í skothríðinni.

Bandaríska alríkislögreglan FBI er með málið í forgangi og Karine Jean-Pierre fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins segir að málinu verði fylgt eftir þar til það leysist.

Talið er að yfirvöld í Mexíkó muni leggja mikla áherslu á að hafa uppi á sökudólgunum til að forðast deilu á landanna í milli. Andrés Manúel Lópes Obrador, forseti Mexíkó lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann telji að málið muni leysast.

Tamaulipas er eitt sex ríkja í Mexíkó sem bandarísk yfirvöld vara borgara sína við að heimsækja sökum hárrar glæpatíðni og mannrána.

Bandaríska alríkislögreglan hefur heitið 50 þúsund dollurum til þeirra sem geta veitt upplýsingar sem leiða til þess að fórnarlömbin finnast og sökudólgarnir nást.

Sífellt algengara verður að glæpagengi beini sjónum sínum að rútum og annars konar langferðabifreiðum í þeirri von að hafa uppi á fólki sem þau telja hægt að krefjast lausnafé fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert