Rússneska leyniþjónustan, FSB, segist hafa komið í veg fyrir tilraun til að ráða af dögum umdeildan auðjöfur. Hún kennir skemmdaverkahópi sem var stofnaður í Rússlandi um tilraunina, en hópurinn komst í síðustu viku yfir landamærin frá Úkraínu.
„Opinbera leyniþjónstan kom í veg fyrir að opinber persóna var ráðin af dögum – stjórnarformaður fyrirtækjasamstæðunnar Tsargrad, Konstantin Malofeev,“ sagði FSB í tilkynningu.
Malofeev er auðjöfur sem tengist rússneskum stjórnvöldum. Bandaríkin saka hann um að hafa brotið gegn viðskiptaþvingunum.
Í síðasta mánuði sögðu bandarísk stjórnvöld að eignir hans sem voru gerðar upptækar yrðu fluttar á brott „til stuðnings úkraínskum almenningi“.
FSB sagði að tilraunin til að myrða Malofeev hefði verið skipulögð af Denis Kapustin, meintum stofnanda samtakanna Russian Volunteer Corps, sem sögðust hafa komist inn fyrir rússnesku landamærin í héraðinu Bryansk í suðurhluta landsins í síðustu viku.
Fram kom í tilkynningu FSB að Kapustin hefði fæðst árið 1984. Hann búi í Úkraínu, starfi fyrir úkraínsku leyniþjónustuna og berjist gegn rússneskum hersveitum.
„Hryðjuverkaárás var skipulögð. Nota átti heimasmíðaða sprengju fasta undir bíl Malofeev,“ sagði þar einnig.
Fram kom að tilraunin hefði líkst þeirri sem varð Darya Dugina, dóttur stuðningsmann rússneskra stjórnvalda, Alexander Dugin, að bana í ágúst í fyrra.