Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir að aftaka Rússa á óvopnuðum úkraínskum stríðsfanga sé sönnun um stríðsglæpi innrásarhersins.
Myndband af aftöku fangans hefur farið víða á samfélagsmiðlum, en þar má sjá hann reykja sígarettu. Rússnesku hermennirnir skipa honum eitthvað, en það eina sem maðurinn segir er „Slava Úkraíni“ eða „Dýrð sé Úkraínu“, og er hann tekinn af lífi örstuttu síðar með vélbyssuskothríð. Hrópuðu rússnesku hermennirnir „Deyðu tík!“ á stríðsfangann.
Kúleba, greinir frá andstyggð sinni á atvikinu á Twitter og segir hann myndbandið vera sönnun þess að tilgangur innrásarinnar sé í raun þjóðarmorð á Úkraínumönnum.
Horrific video of an unarmed Ukrainian POW executed by Russian forces merely for saying "Glory to Ukraine". Another proof this war is genocidal. It is imperative that @KarimKhanQC launches an immediate ICC investigation into this heinous war crime. Perpetrators must face justice.
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) March 6, 2023
Í tístinu nefnir hann Karim A. A. Khan, saksóknara við Alþjóðlega sakamáladómstólinn og segir að þörf sé á rannsókn á þessu máli. Khan hefur enn ekki tjáð sig um málið.