Scott Morrison, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, hvetur áströlsk stjórnvöld til þess að halda áfram að fjárfesta í varnarmálum er spennan milli Taívan og Kína fer stigvaxandi.
Telur hann ekkert land geta varist árásum Kínverja láti þeir til skarar skríða og því sé mikilvægt að Ástralar haldi áfram að leggja áherslu á hernaðarbandalög og alþjóðlegt samstarf.
„Spurningin er sú hvort eitthvert land á svæðinu geti án aðstoðar varist hernaðarstyrk [Kína] og ég held að hreinskilna svarið sé að ekkert land geti gert það upp á eigin spýtur,“ segir Morrison í viðtali við Sky News.
„Við erum 25 milljóna þjóð, varnarmálasjóður þeirra er margfalt, margfalt, margfalt stærri en sá ástralski,“ bætti hann við.
Morrison sagði varnarmálasjóð Ástrala þurfa að nema um 2,5% af vergri landsframleiðslu. Hann taldi þó mikilvægt að fjárfestingin væri í samræmi við áherslu Ástrala á alþjóðlegt samstarf og hernaðarbandalög.
„Þetta snýst ekki eingöngu um að auka fjárfestingar, það skiptir máli hver fjárfestingin er, sérstaklega þegar kemur að loftvarnakerfum okkar, drónum og öllu því.“