Upprættu umfangsmikið kerfi tölvuþrjóta

Þýsk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipanir á hendur þremur meintum …
Þýsk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipanir á hendur þremur meintum höfuðpaurum kerfisins, sem eru sagðir hafa tengsl við Rússland. Ljósmynd/Colourbox

Þýsk yfirvöld greindu frá því í dag að búið væri að uppræta umfangsmikið kerfi tölvuþrjóta sem hafa tengsl við Rússland. Þrjótarnir brutu á fleiri en 600 einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum, þar á meðal breska heilbrigðiskerfinu. 

Aðgerð þýsku lögreglunnar var unnin í samstarfi við bandarísku alríkislögregluna og lögregluyfirvöld í Evrópu. Eftir langa rannsókn voru gerðar húsleitir í Þýskalandi og Úkraínu í síðustu viku. 

Kerfið var notað til fjárkúgunar og skemmdarverka, það er að segja þrjótarnir kröfðust umfangsmikilla fjárhæða eftir að hafa ráðist inn í tölvukerfi fórnarlambanna með svokölluðu spilliforriti. 

Fyrsta stóra árásin var gerð árið 2017 er tölvuþrjótarnir réðust tölvukerfi breska heilbrigðiskerfisins. Þá hefur einnig verið ráðist á sjúkrahús í Þýskalandi og þýskar fjölmiðlasamsteypur. 

Þýsk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipanir á hendur þremur meintum höfuðpaurum kerfisins, sem eru sagðir hafa tengsl við Rússland. Óvíst er hvar í heiminum þeir eru nú staddir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka