Vill að lestarslysið verði sett í forgang

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands.
Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands. AFP/Costas Baltas

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, hefur farið fram á að þau mál er tengjast mannskæða lestarslysinu í síðustu viku, verði sett í algjöran forgang hjá hæstarétti landsins.

57 létu lífið þegar farþega­lest og flutn­inga­lest skullu sam­an á þriðjudaginn í síðustu viku. Slysið hefur vakið upp mikla reiði meðal almennings í landinu sem segja stjórnvöld bera ábyrgð á lélegum lestarsamgöngum. Hávær mótmæli hafa staðið yfir vegna slyssins og hafa átök brotist út milli lögreglunnar og mótmælenda. 

Lest­ar­stöðvar­stjóri sem var á vakt þegar slysið varð hef­ur viður­kennt ábyrgð í málinu. Þá hefur samgönguráðherra Grikklands sagt af sér.

Ítarlega skýringu

„Gríska þjóðin vill skjóta og ítarlega skýringu á þeim glæpsamlegu athæfum er tengjast þessu hörmulega slysi,“ segir í bréfi sem Mitsotakis skrifaði til saksóknara við hæstarétt.

Tók hann fram í bréfinu að rannsókn saksóknara væri aðskilin þeirri sem að sérfræðingar á vegum stjórnvalda stæðu fyrir.

Mitsotakis bað í gær fjölskyldur fórnarlamba slyssins um fyrirgefningu. Í færslu á Face­book-síðu sinni sagði hann að ekki væri í lagi árið 2023 að tvær lest­ir keyrðu á sömu tein­un­um án þess að nokk­ur tæki eft­ir því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert