Í heimsókn 20 árum eftir innrásina

Lloyd Austin, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP/Raigo Pajula

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Írak í morgun, næstum tveimur vikum áður en 20 ár verða liðin síðan ráðist var inn í landið, að frumkvæði Bandaríkjamanna, og einræðisherranum Saddam Hussein steypt af stóli.

„Ég er mættur hingað til að ítreka samvinnu Bandaríkjanna og Íraks á sama tíma og við færumst í átt að öruggara, stöðugra og fullvalda Írak,“ tísti Austin þegar hann lenti í höfuðborginni Bagdad.


Hinn 20. mars verða 20 ár liðin frá innrásinni sem leiddi til tveggja áratuga blóðsúthellinga. Það er fyrst núna sem Írak er byrja að vinna sig út úr þeim.

Undanfarið hafa fleiri erlendir embættismenn heimsótt landið, þar á meðal Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og utanríkisráðherrar Írans, Rússlands og Sádi-Arabíu.

Lloyd Austin (til vinstri) ásamt forsætisráðherra Íraks, Mohammed Shia al-Sudani, …
Lloyd Austin (til vinstri) ásamt forsætisráðherra Íraks, Mohammed Shia al-Sudani, (til hægri) í Bagdad í morgun. AFP

Náin tengsl við Íran

Síðan innrásin í Írak var gerð, sem steypti súnní-múslimum úr valdastóli, hafa sjíta-múslimar, sem eru í meirihluta í landinu, stjórnað Írak. Ríkisstjórnir landsins hafa myndað náin tengsl við nágranna sína í Íran, þar sem sjíta-múslimar fara einnig með völd, auk þess sem Írakar hafa haldið sambandi við Bandaríkin, erkióvin Írans.

Mohammed Shia al-Sudani, forsætisráðherra Íraks (til hægri), tekur í höndina …
Mohammed Shia al-Sudani, forsætisráðherra Íraks (til hægri), tekur í höndina á Guterres í Bagdad 1. mars. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Íran hafa veitt íröskum stjórnvöldum umtalsverðan stuðning í baráttu þeirra gegn súnní-öfgamönnum úr röðum Ríkis íslams, en samtökin réðu yfir stórum hluta norður- og vesturhluta Íraks árið 2014.

Þau misstu landsvæði sín í Írak árið 2017, en eru enn með starfsemi eyðimörkinni og uppi í fjöllum bæði í Írak og nágrannaríkinu Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka